151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

þinglýsingalög.

205. mál
[16:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á þinglýsingalögum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða III í lögunum til að tryggja að þeir kröfuhafar sem ákvæðið tekur til hafi fullnægjandi frest til að þinglýsa viðaukum við veðbréf til að veita skuldara greiðslufrest á afborgunum og/eða vöxtum til allt að 18 mánaða fram til 16. maí 2021.

Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var m.a. bætt við þinglýsingalög ákvæði til bráðabirgða sem veitti viðauka við veðbréf, sem kveður á um frestun greiðslna á skuldum einstaklinga eða fyrirtækja í allt að níu mánuði, sömu réttaráhrif og ef honum væri þinglýst og hann samþykktur af síðari veðhöfum. Var þessi heimild veitt vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og gilti vegna viðauka sem gerðir voru frá og með 16. mars 2020 til og með 1. september 2020. Þá var gert að skilyrði að viðaukunum yrði þinglýst fyrir 16. mars 2021 og að frumrit veðbréfs yrði áritað um skilmálabreytinguna.

Hinn 30. júní 2020 samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og þinglýsingalögum, nr. 82/2020, þar sem frestur kröfuhafa til að ganga frá umræddum viðauka við veðbréf var framlengdur til 1. janúar 2021 í staðinn fyrir 1. september 2020.

Í frumvarpi því sem hér er lagt fram eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem miða að því að skýrt verði kveðið á um að viðaukar við veðbréf um greiðsluhlé að hluta, t.d. frestun á afborgunum eingöngu eða vöxtum eingöngu, falli undir ákvæðið. Í öðru lagi er lagt til að heimild til greiðslufrestunar samkvæmt viðauka verði lengd úr níu mánuðum í 18 mánuði þannig að viðaukar við veðskjöl sem mæla fyrir um greiðsluhlé til lengri tíma rúmist innan bráðabirgðaákvæðis III í þinglýsingalögum. Í þriðja lagi er lagt til að frestur lánveitenda til að þinglýsa viðauka verði framlengdur til 16. maí 2021 þannig að kröfuhafar hafi nægan tíma í ljósi óvissunnar sem rekja má til kórónuveiru til að þinglýsa viðaukunum.

Forsenda þess að kröfuhafar geti brugðist við neikvæðum áhrifum kórónuveirunnar á greiðslugetu einstaklinga og fyrirtæki, samhliða því að lágmarka áhættu og útbreiðslu veirunnar, er að þeim verði tryggður nægur tími til frágangs umræddra viðauka, bæði gagnvart lántökum og þinglýsingu. Standa vonir til að þær breytingar sem hér eru lagðar til skili því markmiði.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.