151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

skráning einstaklinga.

207. mál
[16:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu einstaklinga. Frumvarpið leggur til tvær breytingar á lögunum. Annars vegar er lagt til að lagastoð sé sett undir útgáfu kerfiskennitalna til andvana fæddra barna sem fæðast eftir 22. viku meðgöngu og hins vegar frestun á gildistöku tveggja ákvæða.

Virðulegur forseti. Ég mun nú reifa helstu atriði frumvarpsins. Í lögum um skráningu einstaklinga er, svo sem kunnugt er, ákvæði um kerfiskennitölur. Samkvæmt ákvæðinu geta útlendingar vegna sérstakra hagsmuna hér á landi fengið útgefna kerfiskennitölu. Þessir einstaklingar uppfylla ekki skilyrði til að fá hefðbundna kennitölu og því er brugðið á það ráð að úthluta þeim svokölluðum kerfiskennitölum. Þessar kerfiskennitölur eru notaðar á opinberum stofnunum, t.d. ef þessir einstaklingar þurfa að greiða skatt, nýta læknisþjónustu o.fl., án þess að einstaklingarnir öðlist réttindi hér á landi.

Það hefur tíðkast að skrá börn sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu í utangarðsskrá, sem er forveri kerfiskennitöluskrár. Við samningu frumvarps um skráningu einstaklinga láðist að gera ráð fyrir þessu og því er lagt til með frumvarpi þessu að bætt verði úr. Þannig er lagt til að börn sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu fái kennitölu en fram til þessa hefur tíðkast að skrá börn sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu í svokallaða utangarðsskrá. Með breytingunni öðlast foreldrar barna sem andast eftir 22. viku meðgöngu tiltekin réttindi, svo sem til fæðingarorlofs, samanber 12. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, og því nauðsynlegt þeirra vegna að haldin sé skrá yfir þessa einstaklinga. Þá er nauðsynlegt fyrir heilbrigðisvísindi að þessi börn séu skráð.

Í lögum um skráningu einstaklinga er gert ráð fyrir því að kerfiskennitölur verði aðgreindar frá hefðbundnum kennitölum í kerfi þjóðskrár. Þetta ákvæði átti að taka gildi um næstu áramót. Þjóðskrá Íslands er tilbúin fyrir þessa breytingu en rétt þykir að veita stofnunum ríkisins sem og atvinnulífinu lengri frest til að aðlagast þessum breytingum og því er lagt til hér, frú forseti, að aðgreining kerfiskennitalna frá hefðbundnum kennitölum verði frestað til 1. maí næstkomandi.

Enn fremur er gert ráð fyrir því í lögum um skráningu einstaklinga að bannað verði að miðla þjóðskránni í heild sinni nema í undantekningartilvikum. Bannið á samkvæmt lögunum að taka gildi nú um áramótin. Fyrirséð er hins vegar að þjóðskrárkerfið verður ekki tilbúið tæknilega fyrir þetta bann um næstu áramót og því er lagt til hér að banninu við heildarafhendingu þjóðskrár verði frestað til 1. júní árið 2022. Þess má geta, virðulegi forseti, að kerfi þjóðskrár er tilbúið fyrir þá aðgerð að takmarka eða hafna afhendingu upplýsinga úr þjóðskrá en það ákvæði átti að taka gildi um næstu áramót og því er óhætt að 4. mgr. 12. gr. laganna sem frestað var til áramóta komi til framkvæmda strax og er það lagt til með þessu frumvarpi.

Frú forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.