bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.
Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. Þau lög voru sett hér á Alþingi í kjölfar umræðu um aðbúnað barna á vistheimilinu Breiðavík á ofanverðri 20. öld. Með lögum nr. 26/2007 var mælt fyrir um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn og þannig skapaðar forsendur til samfélagslegs uppgjörs vegna aðbúnaðar barna á vistheimilum á árum áður. Í kjölfarið voru sett lög nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum, sem falla undir lög nr. 26/2007. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga er skilyrði þess að unnt sé að krefjast sanngirnisbóta að fyrir liggi skýrsla vistheimilanefndar um viðkomandi stofnun og að auki innköllun sýslumanns.
Vistheimilanefnd vann vandaðar skýrslur um fjölda vistheimila og í kjölfarið voru greiddar sanngirnisbætur til einstaklinga á grundvelli umsóknar. Síðasta skýrsla vistheimilanefndar frá árinu 2016 fjallaði um Kópavogshæli. Var nefndinni falið að lýsa starfsemi hælisins að því er varðaði vistun fatlaðra barna sem þar dvöldust. Í skýrslunni komu einnig fram tillögur nefndarinnar um framhald hvað varðar aðrar stofnanir þar sem fötluð börn voru vistuð. Vistheimilanefnd hefur kannað almennt starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn en aðeins fjallað um vistun fatlaðra barna á einni opinberri stofnun, Kópavogshælinu.
Markmið þessa frumvarps er að gera kleift að ljúka bótauppgjöri vegna fatlaðs fólks sem vistað var á barnsaldri á öðrum stofnunum sem hið opinbera bar ábyrgð á. Ekki er talin ástæða til að leggja í jafn ítarlegar og tímafrekar úttektir á þeim stofnunum sem út af standa og í fyrri málum eða að gefa út fleiri skýrslur vistheimilanefndar heldur er litið svo á að nægileg vitneskja sé fyrir hendi í þeim skýrslum og rannsóknum sem unnar hafa verið um tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi stofnana og um það sem fór úrskeiðis eða betur mátti fara. Því má segja að með skýrslum vistheimilanefndar hafi þegar farið fram ákveðið uppgjör við fortíðina og þannig skapast grundvöllur til að taka á einfaldari og fljótlegri hátt en áður afstöðu til erinda frá því fólki sem var vistað á barnsaldri á stofnunum fyrir fatlað fólk og telur sig hafa orðið fyrir illri meðferð og ofbeldi í þeirri vistun.
Með frumvarpinu er stefnt að því að ljúka megi samfélagslegu uppgjöri vegna þeirra stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður, það verði gert á einfaldari og fljótlegri hátt en áður, sem gæti orðið til verulegra hagsbóta fyrir þessa einstaklinga þar sem unnt verður að skoða og afgreiða mál þeirra á mun skemmri tíma en til þessa.
Meginefni frumvarpsins er fjórþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að í lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur, verði ekki lengur vísað til laga nr. 26/2007, þ.e. laganna um vistheimilanefnd, og skýrsla vistheimilanefndar verði ekki skilyrði þess að tilteknar bótakröfur verði teknar til meðferðar. Lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, verði felld brott. Ekki er talin þörf á frekari könnunum nefndar samkvæmt lögunum og eins og ég sagði áðan má líta svo á að nægjanleg vitneskja sé fyrir hendi um almennan tíðaranda, viðhorf og uppbyggingu og starfsemi. Í öðru lagi verði nánar afmarkað hvaða kröfur verði unnt taka til meðferðar, bæði hvað varðar tegund stofnana, tímabil og hvernig meðferð bótakrafna skuli háttað. Lagt er til að miðað verði við sama tímamark og gert var varðandi Kópavogshælið, þ.e. til 1. febrúar 1993, að ekki skipti máli hvort viðkomandi stofnun hafi starfað lengur en til 1993. Ekki skiptir heldur máli þótt enn sé við lýði annars konar starfsemi undir sama heiti, svo sem sambýli eða búsetukjarni. Tillaga um þetta tímamark byggist á jafnræðissjónarmiðum og eins þeim breytingum sem urðu á búsetumálum fatlaðs fólks og þjónustu við fötluð börn í tengslum við gildistöku laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992 og árunum þar í kring. Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að greiða bætur í einu lagi án tillits til bótafjárhæðar. Gildandi lög kveða á um að bætur greiðist út á allt að 36 mánuðum. Loks er lagt til að lögum nr. 47/2010 verði markaður ákveðinn líftími. Þau falli brott að þremur árum liðnum frá gildistöku breytinganna. Gert er ráð fyrir að megnið af bótauppgjöri fari fram á komandi ári og ætti þriggja ára tímabil að reynast nægur tími til að ljúka afgreiðslu mögulegra kærumála og hnýta aðra lausa enda. Með því verði lokið eins og frekast er unnt samfélagslegu uppgjöri við þetta tímabil í sögu þjóðarinnar.
Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað á bilinu 414–469 millj. kr. sem skiptist í fjóra þætti. Í fyrsta lagi eru það sanngirnisbætur sem áætlað er að taki til 80 til 90 einstaklinga og komi að mestu til greiðslu árið 2021. Sé tekið mið af bótagreiðslum vegna Kópavogshælis má gera ráð fyrir að meðalbætur verði tæplega 5 millj. kr. og heildarbótagreiðslur um 390–440 millj. kr. Í öðru lagi er kostnaður vegna starfstengiliðar vistheimila í að hámarki 12 mánuði, 15–20 millj. kr. Í þriðja lagi er áætlað að kostnaður vegna starfa úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur verði 4 millj. kr. sem dreifist á þetta þriggja ára tímabil. Og loks er gert ráð fyrir kostnaði við aðkeypta sérfræðiráðgjöf, um 5 millj. kr.
Ákveðin óvissa var um afdrif þessa frumvarps þar sem það var á þingmálaskrá á síðasta vorþingi en það var ákvörðun mín að fresta framlagningu þess vegna heimsfaraldurs. Mikil óvissa var þá um þingstörf og ýmis önnur mál máttu víkja vegna brýnna mála sem tengdust heimsfaraldri. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna málsins í fjárlagafrumvarpinu en tillaga um viðbótarútgjöld verður lögð fram fyrir 2. umr. fjárlaga með væntingum um að þingið muni ljúka afgreiðslu málsins.
Frú forseti. Ég tel að með því að flytja þetta frumvarp sýni ríkisstjórnin í verki að hún taki alvarlega það sem fram hefur komið í umræðum og skýrslum vistheimilanefndar að víða hafi verið pottur brotinn í aðbúnaði, umönnun og velferð fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum á árum áður. Ég ætla ekki að fara út í upplestur úr fyrri skýrslum, ég vænti þess að hv. þingmenn hafi kynnt sér efni þeirra því að þar liggur fyrir gríðarlega mikið efni og margar sláandi lýsingar. Þessu frumvarpi er ætlað að ljúka með sómasamlegum hætti uppgjöri sanngirnisbóta til þeirra sem voru vistuð á barnsaldri á stofnunum fyrir fötluð börn og þar með eins og frekast er unnt samfélagslegu uppgjöri vegna þessa.
Ég hygg að allir þingmenn geti verið sammála um að hér er um að ræða mikilvægt mál sem er nauðsynlegt að taka til umræðu og þinglegrar meðferðar og ég vonast að sjálfsögðu eftir því að Alþingi geti sameinast um að ljúka þessum málum með þeim hætti.
Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari.