bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að kynna þetta frumvarp og hef spurningar til hennar um nokkur atriði. Það kom eins og reiðarslag yfir þjóðina fyrir rétt um 13 árum þegar þetta mál kom fyrst upp á borðið í tilefni af sjónvarpsþætti, þar sem fjallað var um tiltekið heimili úti á landi þangað sem börn voru send á vegum ríkisins til dvalar og meðferðar, ef svo mætti segja, og í ljós kom að þar var ýmis misbrestur á. Síðan eru liðin mörg ár, frumvarp var lagt fram og greiddar hafa verið sanngirnisbætur eins og hæstv. ráðherra hefur farið yfir, og þetta er svokallað lokauppgjör.
Einnig hafa komið fram umsóknir frá öðrum aðilum, ekki margar, vegna ýmissa annarra heimila sem ekki voru á vegum ríkisins, voru einkaheimili eða einhvers konar sjúkrastofnanir og sveitaheimili í einkaeigu sem tóku við börnum, oft á vegum opinberra aðila, ríkisins, sveitarfélaga, barnaverndarnefnda eða félagslegra aðila. Fram hafa komið upplýsingar um að meðferðin þar hafi í einstaka tilfellum hugsanlega ekki verið nægilega góð. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er ætlunin, þó að þetta heiti lokauppgjör, að taka þetta eitthvað til meðferðar? Ekki er um mörg tilvik ræða, ekki um mörg heimili að ræða, en er ekki rétt, vegna þess að þetta hefur (Forseti hringir.) gengið vel hingað til, að klára þetta mál algerlega?