151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[17:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Þetta hefur tekið 13 ár — mikil vinna, miklir fjármunir — og það lítur út fyrir að við séum loks að lenda þessu en yfir 1.000 umsóknir hafa borist. Ég held að óhætt sé að segja að þetta hafi verið unnið vel og menn eru ánægðir með hvernig staðið hefur verið að málum af hálfu ríkisins. Eins og hæstv. ráðherra sagði er þar fyrir utan um að ræða á annan tug aðila sem tóku börn til fósturs á vegum opinberra aðila. Ég tel að ekki sé hægt að setja punkt, frú forseti, við þessi mál í fortíðinni fyrr en búið er að klára það allt algerlega. Ef það er svona lítið sem stendur út af, fá tilvik, fáir aðilar og fá heimili, og búið að leggja alla þessa vinnu í þessi mál, þarf þess þá heldur að klára þetta alfarið. Það væri sómi að því fyrir okkur, fyrir löggjafarsamkunduna og fyrir ríkisvaldið, að þetta verði klárað. Þessi börn, ég hef heyrt dæmi þess, voru sannarlega send á þessa staði á vegum opinberra aðila og þó að um einkaheimili hafi verið að ræða þarf að klára málið og rannsaka það. Auðvitað er langt um liðið og þetta er erfitt, en ekkert erfiðara en þau mál sem voru hér fyrir upphaflega í þessu máli. Ef þetta eru svona fá tilvik og fá heimili þá hvet ég hæstv. ráðherra til að setja endapunktinn í þessu máli og klára það alfarið. Það er skömm fyrir okkur sem þjóð að hafa þetta í fortíðinni. Við verðum að klára þetta alla leið.