bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.
Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi, og það væri mikill sómi að því fyrir Alþingi, að ljúka þessum málum með myndarlegum hætti. Það er fjallað um þetta í greinargerðinni. Þar er vitnað í skýrsluna um Kópavogshæli. Ég vil taka undir með hv. þingmanni, mjög mikil vinna hefur verið lögð í margar af þessum rannsóknum. Þar er verið að fjalla um sjálfseignarstofnanir en líka stofnanir sem er álitamál hvernig eigi að skilgreina, hvort kalla eigi þær sambýli eða einkaheimili, fjölskylduheimili. Hér er vitnað sérstaklega til þess að fötluð börn voru vistuð á einkaheimilum til lengri og skemmri tíma. Ég vil sömuleiðis segja að þess eru dæmi að fötluð börn hafi verið vistuð langdvölum á sjúkrahúsum, einfaldlega vegna þess að það voru engin önnur úrræði. Þetta er svo sannarlega ekki einfalt mál að ná utan um. Ég veit líka að það eru margir einstaklingar sem bíða eftir þessu frumvarpi, sem hafa fylgst með þeirri vinnu sem hefur staðið yfir í 13 ár og hafa sagt mér, og vafalaust einhverjum öðrum hv. þingmönnum, sína reynslusögu. Ég ætla ekki að neita því að ég legg á það mikla áherslu að við getum einmitt lokið þessu með sómasamlegum hætti fyrir Alþingi og þannig gert upp við það fólk sem var vistað á þessum heimilum sem börn, fötluð börn.