bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta gríðarlega góða mál sem tengist nauðsynlegu og þörfu uppgjöri okkar sem samfélags við þær misgjörðir og þá vanrækslu sem börn bjuggu við. Við skulum halda því til haga og muna að þau börn sem bjuggu við verstu aðstæðurnar voru þau börn sem voru í erfiðustu félagslegu aðstöðunni, þ.e. bjuggu við fátækt, voru börn einstæðra mæðra, fötluð börn o.s.frv. sem áttu erfitt bakland.
En hv. þm. Karl Gauti Hjaltason kom eiginlega inn á það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra um, þ.e. um afstöðu hennar varðandi þau börn sem myndu lenda utan þess sem lagafrumvarpið á að ná utan um og hvort lokauppgjörið sem talað er um í lagafrumvarpinu sé endanlegt eða hvort það sé að hennar mati rými fyrir þingið til að útvíkka þetta hugtak um lokauppgjör og hvort það sé þá eitthvert rými enn þá til að ná yfir þau börn sem voru vistuð á einkaheimilum af hálfu barnaverndanefnda í sveitarfélögum sem vissulega eru opinberir aðilar sem höndluðu með börn og þeirra örlög.
Að einhverju leyti hefur hæstv. forsætisráðherra svarað þessari spurningu hér í andsvari við hv. þingmann. En ég myndi gjarnan vilja heyra skoðun hennar á því hvort enn þá sé rými fyrir þingið til að stíga þarna inn í og útvíkka hugtakið eða koma með öðrum hætti að því að kanna þessi börn og hagi þeirra og hvort þurfi að fara í nánara uppgjör gagnvart börnum sem lenda utan laganna.