151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[17:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom að hér áðan er verið að horfa til þeirra vist- og meðferðarheimila sem voru rekin af ríki eða sveitarfélögum eða af hálfu einkaaðila en ávallt með aðkomu ríkisins, þ.e. með leyfi ríkisins. Bara svo að það sé skýrt er ekki verið að horfa til þeirra sem voru sendir til einkaheimila af öðrum einkaaðilum. Það væri náttúrlega illmögulegt að ná utan um það. Þarna er verið að horfa til þeirra ráðstafana sem hið opinbera greip til enda er það þar sem skylda okkar liggur, þ.e. að gera upp við framgöngu hins opinbera gagnvart þessum börnum á sínum tíma, en þau voru auðvitað líka send á einkaheimili. Það er horft til þess í skilningi laganna frá 2007, þ.e. vist- og meðferðarheimila sem voru rekin af ríki eða sveitarfélögum eða af hálfu einkaaðila á grundvelli opinbers leyfis. Og það var auðvitað töluvert um það.

Eins og ég fór yfir hér áðan er búið að vinna ítarlegar skýrslur um ýmsar aðrar stofnanir sem gefa okkur í raun og veru þennan grundvöll til að standa á. Og það var niðurstaða mín eftir að hafa farið yfir skýrsluna um Kópavogshælið — og það er eitthvað sem mér finnst líka mikilvægt að þingið ræði og að sjálfsögðu þarf þingið að fara vel yfir þetta mál því að þetta er mikilvægt mál — að ekki væri þörf á fleiri rannsóknarnefndum heldur skiptir máli að viðurkenna það sem við höfum þegar gert, sem er mjög ítarlegt og sýnir svo vel í raun og veru hvers við getum vænst. Vafalaust hefur það verið eitthvað mismunandi á milli heimila en eigi að síður getum við dregið allalmennar ályktanir af þeim skýrslum sem liggja fyrir. Mér fannst skilaboðin sem ég vildi senda með þessari ákvörðun vera að við vildum ljúka þessu uppgjöri, að við vildum ekki verja fleiri árum í rannsóknir, að við hefðum nóg gögn til að byggja á.