151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[17:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svar hennar. Ég er sammála henni í því að nauðsynlegt er að setja einhvers staðar punkt fyrir aftan þá gríðarlega góðu og ítarlegu vinnu sem hefur farið fram á aðbúnaði barna sem voru á heimilum sem þau voru send á af hálfu opinberra aðila. Ég vil kannski nota tækifærið til að beina því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að horfa til þess hvort lagafrumvarpið sem hér um ræðir gefi einhver tilefni til þess að vera einhvers konar fordæmi fyrir þá sem vísað var á einkaheimili af hálfu barnaverndarnefndar í viðkomandi sveitarfélagi og telja sig eiga einhvern rétt.

Eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á er vinnan sem hefur átt sér stað búin að vera löng og ströng, ítarleg og góð en erfið. En um leið hefur hún verið nauðsynleg til að bæta vinnubrögð í barnaverndarmálum og þeim málefnum sem snúa að góðum aðbúnaði hjá börnum og líka vanrækslu. Ég myndi því gjarnan vilja heyra kannski örstutt undir lokin hjá hæstv. forsætisráðherra, þó að við höfum lítinn tíma, hvernig hún sér þá vinnu sem búið er að fara í, hvort hún muni ekki nýtast okkur í þeirri lagaumgjörð sem við erum að reyna að bæta hér alla daga, vonandi, á þingi.