151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[17:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Kannski fyrst almennt um umgjörð mála sem lúta að uppgjöri ríkisins við þá sem hafa verið órétti beittir. Ég tel að við byggjum á mjög góðri reynslu af því hvernig tekist hefur til og ég held að töluverð þekking sé á þeim málum innan stjórnkerfisins. Ég tel því að við byggjum á sterkum grunni. Það er m.a. líka ástæða þess að mér fannst mikilvægt að koma með þetta mál inn. Þetta er mikilvægt mál, þetta er réttlætismál og það er líka mikilvægt að við missum ekki niður samfelluna í því starfi sem hefur verið unnið hingað til hvað varðar þessi mál.

En ef hv. þingmaður er að velta fyrir sér lagaumgjörðinni sem við erum með núna, hvað varðar börn núna, held ég að þar sé auðvitað líka úrbóta þörf þó að ótrúlega margt hafi breyst til batnaðar frá því sem var. Félags- og barnamálaráðherra er með mál á þingmálaskrá í vetur sem lúta að því hvernig tryggja megi velsæld barna og styðja betur við allt umhverfið í kringum börnin okkar sem ég held að sé mikið framfaramál. Þingið fær því í vetur ekki bara tækifæri til að takast á við örlög barna í fortíðinni heldur líka örlög barna til framtíðar. Og ég held að þar séu heilmikil tækifæri til úrbóta þótt auðvitað hafi gríðarlega margt gott gerst í þessum málum á undanförnum árum og áratugum.