bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.
Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt heldur árétta örlítið það sem hér hefur komið fram og bæta kannski eilitlu við. Hér áður fyrr voru svokölluð ólátabörn eða ólátaunglingar oft send í sveit. Það var talið styrkja þau og efla og gera þau að mönnum, eins og sagt var. Þess vegna þótti á þessum tíma kannski ekki tiltökumál þótt hið opinbera sendi eða ráðlagði það að senda krakkana, börn sem voru kannski erfiðari en mörg önnur, á heimili á vegum ríkisins. Það þótti ekkert stórmál hér á sjötta áratug síðustu aldar. Enginn vissi kannski nákvæmlega eða gerði sér rellu yfir því á þeim tíma hvað þar fór fram og hvað gerðist meðan á þessari dvöl stóð. Við vorum vakin upp við illan draum 2. febrúar 2007 þegar í Kastljóssþætti Ríkisútvarpsins var fjallað sérstaklega um heimilið í Breiðavík og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ríkisstjórnin flutti mjög fljótlega frumvarp um að þetta yrði skoðað. Þá kom í ljós, frú forseti, að víðar var pottur brotinn á þessum heimilum sem voru oftast nær rekin á vegum ríkisins eða opinberra aðila annarra. Meðferð á börnum var oft misjöfn og einkenndist af mikilli hörku oft á tíðum og jafnvel misþyrmingum og þaðan af verra. Það er kannski allt of langt mál að fara nákvæmlega út í það. Það hefur verið gert síðustu 13 árin með mjög vönduðum hætti, að ég tel.
Nú horfum við fram á það að þessu máli sé senn að ljúka. Það voru tekin, held ég, átta heimili í byrjun og svo var bætt við tveimur eða þremur. Þetta var Breiðavík, þetta var Heyrnleysingjaskólinn, Kumbaravogur, Bjarg, Reykjahlíð, Jaðar, Silungapollur, Upptökuheimili ríkisins, Unglingaheimili ríkisins. Síðar var bætt við, held ég, Landakotsskóla og Kópavogshæli. Þetta fékk allt saman vandaða meðferð á grunni laga sem voru sett hér síðar, 2010, og skipuð sérstök nefnd og fulltrúi í ráðuneytinu og síðan var einu ákveðnu sýslumannsembætti falið að greiða út bætur eftir mati og álitum. Þetta hefur allt gengið í gegnum þessi ár öllsömul. Nú horfum við fram á að þessu sé lokið.
Það sóttu mjög margir um, aðilar sem höfðu dvalið á þessum heimilum, og fengu úrlausn sinna mála eða einhvers konar úrlausn, oft og tíðum í formi bóta, sanngirnisbóta svokallaðra, en einnig faglega aðstoð og þeim var leiðbeint um það hvar þau gætu leitað að faglegri aðstoð. Ég hrósa öllum framgangi þessa máls eins og hann lítur út. Þótt ég þekki alls ekki öll tilvik eða hvort einhver sé óánægður þá tel ég að við höfum staðið sig eins vel að þessu og við gátum. Það var hins vegar 69 umsóknum hafnað, miðað við þessa skýrslu sem ég er hér með. Það var auðvitað af ýmsum ástæðum, kannski vegna einhvers misskilnings o.s.frv. Þarna sitja samt eftir tugir tilvika eða umsókna þar sem um er að ræða börn sem, eins og ég nefndi í andsvörum áðan, voru send á vegum opinberra aðila, barnaverndarnefnda, félagsmálayfirvalda o.s.frv. eða samkvæmt ráðgjöf þeirra, börn sem voru í höndunum á opinberum aðilum eða í umsjá þeirra, á einkaheimili eða einhvers konar millistig þar á milli. Þau voru, eins og sum dæmi sanna, send fram og til baka á heimili og síðan tekin þaðan aftur og send á eitthvert annað heimili. Ég hef heyrt sögur af því. Þetta eru örfá tilvik. Ég vil skora á hæstv. ráðherra sem tók svo ansi vel í fyrirspurn mína í andsvari hér áðan varðandi það hvað skuli gera fyrir þetta fólk. Eigum við bara að segja að þessu sé lokið núna og skella á eftir okkur?
Ég held að það sé um svo stórt mál að ræða sem við erum búin að afgreiða að langmestu leyti að við getum ekki verið þekkt fyrir það, frú forseti, að skilja þennan litla hóp eftir. Það þarf að halda áfram þessari vinnu, hún gæti verið í höndunum á þessari nefnd eða einhverjum öðrum aðilum sem skipaðir væru til þess, og skoða þessi fáu tilvik sem eftir eru, rannsaka þau eins og hægt er þó að langt sé um liðið í mörgum tilvikum. Þessir aðilar njóti einnig þess að ríkið vilji greiða fyrir einhvers konar sanngirnisbætur eða afgreiða málið á faglegan hátt með tilvísun til sérfræðinga eða eitthvað slíkt. Við getum ekki verið þekkt fyrir annað en að klára mál alveg.
Ég hvet hæstv. ráðherra til að þessu máli verði sinnt og við skiljum ekkert eftir í þessum efnum. Við höfum ekki efni á því. Þetta var það mikið áfall þegar í ljós kom hvernig var í pottinn búið víða, sem betur fer alls ekki alls staðar og alls ekki í öllum tilvikum, langt í frá, ég ætla ekki að mála þetta svo svart, en í mörgum tilvikum var það þannig. Við verðum að klára málið, fara með það alla leið.