151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Um margra mánaða skeið hefur ríkisstjórnin hunsað kröfur stúdenta um að veita þeim rétt til atvinnuleysisbóta, hvort sem er að sumri eða vegna starfa þeirra með námi. Þó að stúdentar hafi um margra ára skeið þurft að vinna meðfram námi til að ná endum saman, einfaldlega vegna þess að framfærslan sem námsmönnum er skömmtuð í gegnum námslánakerfið dugar ekki, þá eiga þeir engan rétt. 69% stúdenta á Íslandi vinna með námi og 87% stúdenta vinna fullt starf að sumri. Öll hafa þau staðið undir greiðslu atvinnutryggingagjalds í Atvinnuleysistryggingasjóð, sum hver í áratug, án þess að eiga nokkurn rétt. Hvaða réttlæti er í þessu?

Nú á svo að gera breytingar á úthlutunarreglum Menntasjóðs vegna starfa í bakvarðasveitum heilbrigðis- og velferðarkerfisins og lögreglu og að tekjur vegna þeirra komi ekki til skerðingar námslána. Við í Samfylkingunni fögnum þessu frumkvæði hæstv. menntamálaráðherra að sjálfsögðu, en þetta inngrip vegna einstakra mála varpar einmitt ljósi á fílinn í stofunni sem er einfaldlega að frítekjumarkið er allt of lágt fyrir alla, ekki bara bakverði heldur fyrir alla stúdenta.

Sem dæmi eru almenn nemalaun hjá ríkisstofnunum yfir 360.000 kr. á mánuði og ef nemi vinnur þar í eitt sumar er hann kominn yfir frítekjumarkið og námslánin skerðast. Vítahringurinn er hafinn, framfærslan skerðist og neminn þarf að vinna meira. Það er algjörlega óboðlegt að kerfið komi þannig í veg fyrir að námsmenn geti framfleytt sér og fjölskyldu sinni yfir sumarið eða með hlutastarfi með námi. Nú er með nýjum lögum um Menntasjóð búið að skerpa á þeirri ábyrgð sem liggur hjá ráðherra, ekki hjá stjórninni, þ.e. að setja úthlutunarreglurnar, og því skora ég á hæstv. menntamálaráðherra að fara núna í þetta mál og hækka frítekjumarkið. Það er réttlætismál.