151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Geðheilbrigðismál eru í svo miklum ólestri að Geðhjálp biður almenning um að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um hjálp til að koma þeim í lag, skorar á fólk að skrifa sig á síðuna 39.is. Eins og þessum málum er háttað í dag þurfa börn og fullorðið fólk með geðsjúkdóma, sem þarf á bráðaþjónustu að halda, tilvísun frá heilsugæslunni. Og þar er biðin oft löng. Fólk þarf jafnvel að tala við símsvara sem gefur jafnvel villandi möguleika. Fólk er sent frá Pontíusi til Heródesar í tilgangsleysi í stað þess að fá hjálp strax.

Virðulegur forseti. 1.193 börn um allt land bíða eftir greiningu eða meðferð við geðrænum og sálrænum vanda. Fjölmennastur er biðlistinn á Þroska- og hegðunarstöð þar sem 584 börn bíða greiningar. 107 börn bíða eftir greiningu og meðferð á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, og níu börn eru á biðlista eftir innlögn á deildina. Við erum að láta börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur jafnvel árum saman. Og engin er aðstoðin fyrir börn sem þurfa að búa hjá fólki sem býr við geðræna sjúkdóma. Þar er líka pottur brotinn.

Og hverjar eru afleiðingarnar fyrir viðkomandi börn? Skólaganga þeirra er í uppnámi, framtíð þeirra er í uppnámi, framtíð fjölskyldunnar er í uppnámi. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta með því að sjá til þess að börn séu ekki á biðlistum.