151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Árið 2012 var sett í lög bann við veiðum á hvítlúðu í atvinnuskyni. Sama ár var gefin út reglugerð um að landa mætti lúðu sem meðafla í dregin veiðarfæri, troll, snurvoð og net, og 80% af aflaverðmæti færu til Hafrannsóknastofnunar og 20% til útgerðar. En á línuveiðum og krókum skyldi skera á tauminn og sleppa allri lúðu, hvort sem hún væri lifandi eða dauð.

Ég lagði fyrir skriflega fyrirspurn til ráðherra á í þinginu 2017–2018 og fékk það svar við spurningunni, sem var um það hvernig þessar rannsóknir gengju, að heldur hefði nú vænkast hagur strympu í sambandi við þetta en ekki væri tímabært að gefa út leyfi til veiða á lúðu. Vaxtarhraði lúðu er um 5–10 ár, var sagt í svarinu.

Ég hef lagt fram þá hugmynd, og geri það hér enn á ný, að stjórnvöld gefi út leyfi til að landa lúðu sem meðafla á krókum, á línu, bæði til að verðmæti komist í land og til að Hafrannsóknastofnun sjái þokkalegan viðgang lúðu því að þeir kvarta yfir fjármagnsleysi til rannsókna. Þetta myndi sýna vöxt lúðunnar að einhverju leyti og skapa verðmæti. Það drepst mikið af þessari lúðu sem skorið er niður og alls staðar í kringum landið eru bátar núna á veiðum að skera á tauma og lúðan dettur í sjóinn. Þetta er verðmætamál. Þetta er stórt mál sem mér finnst að við ættum að fara í, ekki síst núna þegar okkur vantar gjaldeyri í landið.