151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni, hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, fyrir ágæta ræðu og fyrir að hleypa þessu mikilvæga máli úr hlaði, svokölluðu lyklafrumvarpi. Ég vil nota tækifærið og þakka framsögumanni einnig fyrir þrautseigju í þessu máli, sem hefur verið lagt nokkrum sinnum fram af öðrum þingmönnum á fyrri þingum, og þá ítarlegu og góðu vinnu sem liggur að baki frumvarpinu. Auk þess ber að sjálfsögðu að þakka Hagsmunasamtökum heimilanna sem hafa einnig komið að þeirri vinnu og ég vil nota tækifærið hér til þess en ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps.

Eins og við þekkjum hefur fjármálaþjónusta veruleg áhrif á líf einstaklinga og heimila í landinu og það er því hagsmunamál samfélagsins að neytendur taki vel upplýstar ákvarðanir og þær séu verndaðar á fullnægjandi hátt misfarist eitthvað í tengslum við kaup á fjármálaþjónustu, einkum svokölluð neytendalán, og þar ber hæst húsnæðislán. Húsnæði er oftast stærsti einstaki útgjaldaliður einstaklinga og heimila og enn sem komið er búa flestir hér á landi í eigin húsnæði og svokölluð séreignarstefna hefur ríkt hér á landi í næstum 100 ár. Stærstu fjármagnsskuldbindingar langflestra einstaklinga og fjölskyldna tengjast húsnæði þeirra, fyrst í formi skulda vegna öflunar húsnæðisins sem breytist síðan, ef vel gengur, í mikilvægustu eignamyndun þeirra þegar fram líða stundir og húsnæðislán eru stærsta varan, ef svo má að orði komast, á viðskiptabankamarkaðnum.

Í frumvarpinu kemur fram að það sé mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántaka. Það er gríðarlega mikilvægt og markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum fasteignalána þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign sem sett er að veði fyrir láninu, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær, eins og segir orðrétt í greinargerð með frumvarpinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að veð að baki húsnæðisláni sé eingöngu bundið við fasteignina og því ekki hægt að ganga að öðrum eignum þeirra sem taka húsnæðislán. Það er mjög mikilvægt, herra forseti, í okkar huga í Miðflokknum sem stöndum að þessu frumvarpi að mál þetta fái góða framgöngu í þinginu og verði samþykkt, ekki síst í ljósi þeirra efnahagslegu þrenginga sem samfélagið okkar er komið í vegna kórónuveirufaraldursins og hætta á nauðungarsölum eykst vegna þess.

Það er fróðlegt þegar rætt er hér um þetta mikilvæga mál að skoða skýrslu sem gerð var á vegum forsætisráðuneytisins árið 2013 um neytendavernd á fjármálamarkaði. Þar voru settar fram tillögur um hvernig styrkja mætti stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán. Margt athyglisvert kemur þar fram sem vert er að gefa gaum í tengslum við þetta mál. Það er nauðsynlegt að bæta og skýra stöðu einstaklinga gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem veita einstaklingum lán og auka ábyrgð þeirra gagnvart þessum hópi neytenda. Og það er einmitt það sem er verið að gera í þessu frumvarpi.

Í eftirmálum efnahagshrunsins hér á landi hefur talsvert verið rætt um hallann á stöðu neytenda gagnvart lánveitendum og einkum á fjármálamarkaði. Hrun fjármálakerfisins hér á Íslandi og afleiðingar þess vörpuðu einmitt ljósi á veika stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum og starfshættir fyrirtækjanna í aðdraganda hrunsins voru ámælisverðir og á köflum ólögmætir eins og dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán bera með sér. Almenn óánægja og vantraust ríkti í garð fjármálastofnana meðal landsmanna af þeim ástæðum og vegna almenns skuldavanda einstaklinga og heimila.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, og ég veit að við erum það flestöll hér, að bankar eigi að vera samfélagsvænar stofnanir. Þeir eiga að hafa siðferðileg viðmið. Á það hefur skort, sérstaklega í aðdraganda efnahagshrunsins. Þeir eiga að hafa að leiðarljósi virðingu og heilindi gagnvart viðskiptamönnum. Þetta lýtur allt að trausti almennings á bönkunum. Það er aukin vitundarvakning um nauðsyn þess að styrkja neytendavernd á fjármálamarkaði og í eftirmálum efnahagshrunsins hrapaði traust almennings til fjármálastofnana. Það var 7% árið 2012 samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup og heil 3% árið 2009. Gleymum því ekki að lán geta einnig virkað sem ákveðið öryggisnet, þ.e. að leyfa fjölskyldum að fá lán á meðan þær bíða eftir betri aðstæðum, þegar þær hafa t.d. orðið fyrir atvinnumissi, heilsubresti eða jafnvel sundrun fjölskyldu.

Mikilvægir þættir til að tryggja neytendavernd á sviði fjármálamarkaða eru heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja og lánastofnana, öflugt regluverk sem takmarkar áhættu af starfsemi slíkra aðila fyrir almenning og opinbert eftirlit sem tryggir framfylgni regluverksins. Meginþáttur í neytendavernd á fjármálamarkaði felst í að fjármálakerfið gegni hlutverki sínu, sé skilvirkt og gegnsætt og heilbrigðir viðskiptahættir séu viðhafðir. Það er meginþátturinn í neytendavernd. Aðstöðumunur ríkir milli neytenda og fjármálastofnana. Við þekkjum það. Þetta frumvarp lýtur m.a. að því að taka á því með sanngjörnum hætti. Aðstöðumunurinn lýtur einnig að því að fjármálastofnanir búa yfir ákveðinni sérfræðiþekkingu í skjóli þess hlutverks að vera lánveitandi í atvinnuskyni. Þá eru neytendurnir misjafnlega í stakk búnir til að skilja til fulls þá áhættu sem felst í lánasamningum, t.d. að geta borið saman ólíkar vörur sem fjármálastofnanirnar eru að bjóða upp á og vanmeta oft og tíðum afleiðingar vanskila og brota á skilmálum. Í stuttu máli má því segja að ríkari kröfur verði gerðar til aðgæsluskyldu gagnvart lánveitanda.

Tilteknir hópar kunna að eiga erfiðara með að átta sig á þeirri alvöru og skuldbindingu sem felst í lántöku, t.d. hvað ber að varast og má þar einkum nefna ungt fólk sem í mörgum tilfellum er að kaupa sína fyrstu eign og taka sitt fyrsta lán. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2013, sem ber yfirskriftina Fjármálaþjónusta á krossgötum kemur fram að efling neytendaverndar á fjármálamarkaði sé mikilvæg fyrir virkni markaðarins og samkeppnislegt aðhald. Hins vegar geti neytendur aðeins veitt samkeppnislegt aðhald ef þeir eru meðvitaðir um rétt sinn og verð og gæði þjónustunnar.

Nú snýst neytendavernd einkum um ítarlega upplýsingagjöf og gagnsæi og er það sagt önnur af tveimur helstu nálgunum við neytendavernd á fjármálamarkaði. Forsenda þess að tekin sé upplýst ákvörðun við lántöku er sú að réttar og fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir, bæði frá neytanda og lánveitanda. Lánveitandi þarf að veita upplýsingar um kostnað við lántökuna, greiðsluáætlun, útlánavexti og aðra þætti, t.d. hvort þeir séu hindranir við endurfjármögnun, uppgreiðslugjöld sem eru allt of há á Íslandi, hvaða þýðingu það hefur ef lán eru verðtryggð o.s.frv. Það skiptir verulegu máli að lántaki sé upplýstur nægilega vel um þessa mikilvægu þætti.

Íslenskur fjármálamarkaður einkennist af fákeppni, því miður. Á slíkum markaði er hætt við að stærstu fyrirtækin öðlist sameiginlega markaðsráðandi stöðu sem einkennist af því að fyrirtækin taka gagnkvæmt tillit hvert til annars í stað þess að keppa af metnaði við hvert annað. Engir erlendir bankar eru á íslenskum markaði en mögulega gætu þeir aukið samkeppni og þar af leiðandi bætt kjör neytenda og vonandi eigum við eftir að upplifa það innan ekki svo skamms tíma að hér hefji erlend fjármálastofnun starfsemi. Ég held að það sé hollt og gott fyrir íslenska fjármálakerfið, t.d. er allt of hár fjármagnskostnaður við lántöku hér á landi.

Staða neytenda á lánamarkaði hér er að mörgu leyti verri en í nágrannaríkjunum vegna þess hve fjármagnskostnaður við lántöku er hár, sem og raunvextir og árlegur heildarkostnaður. Þó að raunvextir séu óvenjulágir núna þá mun það breytast innan ekki svo langs tíma. Samkeppniseftirlitið hefur skilgreint hina þrjá stóru viðskiptabanka í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu á fjármálamarkaði. Stóru bankarnir þrír eru því hver fyrir sig í lykilhlutverki í viðskiptalífinu. Framboð á lánamarkaði hér er fremur lítið. Í Danmörku er framboðið t.d. töluvert meira. Þar er boðið upp á önnur lánaform, t.d. svokölluð vaxtalán og möguleg lán með verðtryggingarþaki þannig að lán hækki ekki yfir eða umfram umsamin mörk og áhættunni af verðbólguskoti þannig dreift á milli lánveitanda og lántaka. Þetta er það sem er grundvallaratriðið í þessu máli, að dreifa áhættu milli lánveitanda og lántaka.

Herra forseti. Ég ítreka að ég vona sannarlega að þetta frumvarp fái framgöngu á þinginu vegna þess að það er ákaflega mikilvægt, eins og ég nefndi í upphafi, ekki síst vegna stöðunnar í þjóðfélaginu í dag. Það er hætta á því að við sjáum aukningu í nauðungarsölu, margir hafa misst sína atvinnu og lífsviðurværi og erfiðleikar hjá mörgum fjölskyldum. Þess vegna er þetta frumvarp afar tímabært og enn og aftur virkilega vel unnið. Ég vil þakka enn og aftur framsögumanni, Ólafi Ísleifssyni, fyrir góða vinnu við þetta frumvarp, enda hefur hann mikla og góða þekkingu á þessu sviði og reynslu.

Það er mikilvægt að til framtíðar verði í auknum mæli leitast við að koma í veg fyrir alvarlegan greiðsluvanda einstaklinga, svo sem með aukinni áherslu á forvarnir og önnur úrræði sem hafi það m.a. að markmiði að auka fjármálalæsi almennings og ná til einstaklinga áður en þeir hafna í svo alvarlegum greiðsluvanda að þeir standi frammi fyrir gjaldþroti. En það er líka rétt að geta þess, eins og segir á bls. 3 í frumvarpinu, að gengið er út frá því að á þetta ákvæði reyni ekki nema í neyð, t.d. þegar greiðslufall hefur orðið af hálfu skuldara og lögbundinn réttur kröfuhafa til að leita fullnustu á kröfum sínum hefur orðið virkur. Það er rétt að hafa þetta í huga.

En að lokum, herra forseti, segi ég enn og aftur að ég vona að málið fái framgang hér og hv. þingmenn taki vel í það og dvelji ekki í einhverjum atriðum sem skipta þetta mál engu.