151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:42]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Hér er til umræðu svokallað lyklafrumvarp, en svipað eða sambærilegt frumvarp hefur margoft áður verið lagt fram hér á Alþingi. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson endurflytur það nú eftir að hafa lagt það fram á síðasta þingi. Það hlaut ekki afgreiðslu þá en ég geri mér vonir um að augu manna hafi smám saman opnast fyrir því hvers lags grundvallarmál við ræðum hér.

Frumvarpið varðar breytingar á tvennum lögum, þ.e. lögum um nauðungarsölur og lögum um fasteignalán til neytenda. Ég er meðflutningsmaður í þessu máli og hef í hyggju að reifa nokkur sjónarmið og leggja inn í umræðuna. Frumvarp sem þetta var ítrekað lagt fram eftir bankahrun, þegar við horfðum upp á það að fjölskyldur voru bornar út af heimilum sínum í tugþúsunda tali. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu nú, þegar búast má við að þjóðartekjur taki skarpa sveiflu niður á við, má segja að frumvarpið gegni hlutverki einhvers konar öryggisventils til að koma í veg fyrir að fólk sé hundelt eftir að hafa lent í vanskilum. Það hefur nefnilega ekki nægt lánastofnunum í gegnum tíðina að hirða heimilið af fólki, það er elt árum saman með eftirstöðvar krafnanna sem þá samanstanda oftast og auðvitað mestmegnis af vöxtum, dráttarvöxtum og innheimtukostnaði sem ekki fékkst greiddur af andvirði fasteignarinnar sem seld var nauðungarsölu.

Það er grundvallarsanngirnismál að setja punkt aftan við það þegar fólk missir heimili sitt. Það á ekki að líðast að allslaust fólk sé leitað uppi eins og um stórglæpamenn sé að ræða og sérfræðingar í innheimtu, fólk sem sérhæfir sig í slíkri innheimtu, notist við og hafi öll þau ráð sem réttarkerfið hefur upp á að bjóða til að hundelta allslaust fólk.

Herra forseti. Áður en fjármálahrunið varð 2008 var úrræði eins og við ræðum hér þekkt í Bandaríkjunum en síðan hefur það verið tekið upp víða í Evrópulöndum. Við höfum hins vegar ekki tekið upp þessa aðferð við skuldaskil fasteignalána til neytenda á Íslandi þrátt fyrir bitra reynslu. Ég tel að samþykkt þessa frumvarps muni bæta mjög og tryggja stöðu heimila í ljósi þess sérstaklega að um 9.200 fasteignir í eigu einstaklinga voru seldar nauðungarsölu hér á landi á næstu tíu árum eftir bankahrunið, eins og fram hefur komið og kom fram í svari við fyrirspurnum hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, flutningsmanns þessa frumvarps, til hæstv. dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Í þessum tölum birtist okkur hvernig ríkisstjórnin 2009–2013 vanrækti heimilin með þessum afleiðingum, það birtist í þessum tölum. Við þurfum að standa með heimilunum.

Herra forseti. Er þetta þarft mál? Já, þetta er þarft mál ef bara þessar tölur eru skoðaðar. Hvernig hefur framkvæmdin verið? Þar tala ég af nokkurri reynslu þar sem ég vann við þetta í áratugi. Framkvæmdin eftir nauðungarsölur hefur verið sú að ófullnægðir kröfuhafar, þ.e. þeir sem ekki fá kröfu sína greidda að fullu, hafa margir hverjir haldið áfram að innheimta eftirstöðvar kröfunnar eftir söluna. Þannig hafa lánastofnanir oft og tíðum hundelt þetta fólk eftir að heimili þess hefur verið selt á nauðungarsölu. Þannig hefur fólk verið krafið um eftirstöðvar lánsins, jafnvel þótt veðandlagið, þ.e. heimilið, fasteignin, hafi verið selt.

Í raun og sanni erum við hér að tala um ábyrgð. Hingað til hefur ábyrgðin eingöngu verið lögð á lántakanda. Ef hann greiðir ekki hefur lánveitandi ýmis úrræði eins og þetta, að fara nauðungarsöluleiðina, taka sinn hlut eða andvirði fyrir kröfunni og halda síðan áfram, ef eitthvað stendur eftir, sem oft er sökum verðtryggingar, vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, að hundelta viðkomandi eftir nauðungarsöluna kannski árum saman, hirða bæði laust og bundið í eigu skuldarans, setja hann á vanskilaskrá með tilheyrandi óþægindum fyrir viðkomandi í áraraðir.

Við erum einnig að tala um hvar áhættan liggur. Þá kem ég aftur að því hver sé ábyrgð og áhætta lánveitandans, bankastofnunarinnar. Lánveitandinn lánar kannski 50% eða 70% af andvirði fasteignar upphaflega. Hann tekur með því tiltölulega litla áhættu vegna þess að lánið má hækka töluvert og fasteignin má lækka töluvert áður en hann fer að sjá fram á raunverulegt tap á hluta af sinni kröfu nema hann samþykki að fara ofar í andlaginu eða aftar og taka þá áhættu. Hann tekur enga slíka áhættu, hann er ekki látinn sæta neinni ábyrgð þegar hann ákveður að lána viðkomandi. Þetta er spurning um ábyrgð og áhættu að mínu mati. Það er tími til kominn að lánastofnanir taki einhvern hluta áhættunnar og ábyrgðarinnar á sínar herðar.

Herra forseti. Þetta er einfalt. Lánastofnun lánar með veði í fasteign. Lánveitandi getur að mestu séð fyrir hvort hún dugir til eða ekki og þar þurfa að gerast einhverjir stórir atburðir, eins og gífurleg lækkun fasteignamats eða fasteigna, sem verður til þess að lánveitandi lendi í einhverju tapi og yfirleitt er það tap bundið í öðrum kostnaði eins og t.d. í innheimtukostnaði, dráttarvöxtum, og sá kostnaður leggst yfirleitt á á síðari stigum innheimtu. Á seinustu stigum innheimtuferilsins gerist það að krafa hækkar mjög hratt. Sjálf krafan er kannski enn frekar hófleg, kannski ári eftir hún lendir í vanskilum, en allt það sem við bætist vex með miklum ólíkindum. Það er sú krafa sem við erum að tala um. Er réttlætanlegt að hún standi úti ef lánveitandinn hefur tekið þá áhættu að lána mjög hátt upp í veðandlag fasteignar? Er það réttlætanlegt? Ég segi: Já, við verðum að fella ábyrgð á lánveitanda líka. Hann verður að taka einhverja áhættu af gjörðum sínum og ákvörðunum sínum. Það er ekkert til of mikils mælst.

Herra forseti. Lærum af þeim þjóðum sem hafa tekið upp sambærilega reglu og þetta frumvarp hefur að geyma. Leggjum ábyrgðina á fleiri bök. Bak þeirra sem misstu heimili sín er brotið eftir síðustu holskeflu. Látum það ekki gerast aftur.