151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Frumvarpið er nú flutt í þriðja sinn en það byggir á frumvarpi stjórnlagaráðs sem tveir þriðju hlutar kjósenda samþykktu að leggja ætti til grundvallar nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Frumvarpið er flutt af þingflokkum Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins ásamt hv. þingmönnum utan flokka, Andrési Inga Jónssyni og Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Með frumvarpinu vilja flutningsmenn taka upp þráðinn þar sem frá var horfið árið 2013 þegar nýju stjórnarskránni var stungið ofan í skúffu.

Segja mætti að frumvarpið sé eins konar stöðuskjal en það sýnir hvar málið var statt þegar þingið hætti afskiptum af málinu á sínum tíma, fellir t.d. inn í textann breytingartillögur úr framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá þeirri tíð. Markmið frumvarpsins er að taka saman í eitt heildstætt skjal alla þá vinnu sem farið hefur í nýju stjórnarskrána inni á Alþingi. Það er að okkar mati æskileg nálgun til þess að halda áfram meðferð málsins á lýðræðislegan hátt. Því kynnum við þetta myndarlega skjal til leiks.

Virðulegur forseti. Ísland er lýðræðisríki eða Ísland ætti a.m.k. að vera lýðræðisríki. En hvers konar lýðræði er það að þing og ríkisstjórn virði að vettugi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu? Svarið er að við getum ekki með góðri samvisku sagt að við búum í lýðræðisríki þegar stjórnvöld neita að fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú heyrast oft í andstæðingum nýju stjórnarskrárinnar einhver rök á þá leið að þetta hafi nú bara verið ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég vil minna þessa sömu andstæðinga á að Brexit var líka ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla en ekki datt breskum þingheimi í hug að virða niðurstöðu hennar að vettugi þótt niðurstaðan væri þeim mörgum þvert um geð enda er Bretland lýðræðisríki, nema hvað. Rithöfundurinn Halldór Armand Ásgeirsson lýsti þessu brenglaða viðhorfi andstæðinganna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu mjög vel í nýlegum pistli á RÚV en þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Þingið leitaði þar eftir ráðgjöf þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá en gleymdi að láta hana vita að hugmyndin væri sú að ráðgjöfin væri negatíf — það ætti einmitt að gera hið andstæða við ráðgjöfina. Þjóðaratkvæðagreiðslan var einstök á heimsvísu að því leyti að tilgangurinn með henni var að komast að því hvað þjóðin vildi en gera síðan hið gagnstæða. Ef þjóðin lýsti því yfir í ráðgjöf sinni að hún vildi nýja stjórnarskrá byggða á tillögum sem voru til staðar, þá yrði það einmitt ekki gert.“

Virðulegi forseti. Það sér það auðvitað hver heilvita manneskja að þessi rök standast enga skoðun. Það er bara ekki í boði að hunsa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lýðræðisríki, punktur.

Forseti. Því hefur stundum verið haldið fram að nýja stjórnarskráin sem hér um ræðir sé á einhvern hátt umbylting gildandi stjórnarskrár. Svo er ekki. Hún er tímabær og viðeigandi uppfærsla. Þess má geta að tæplega 80% af gömlu stjórnarskránni er áfram að finna í þeirri nýju. Þessi stjórnarskrá felur í sér margvíslegar réttarbætur fyrir Ísland, m.a. betri mannréttindavernd en mannréttindavernd er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnarskrár. Þess vegna ákvað stjórnlagaráð á einum af sínum fyrstu fundum að endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar væri eitt af þeim meginverkefnum sem ráðið vildi taka sér fyrir hendur. Áherslan á mannréttindi í nýju stjórnarskránni sést kannski best í því að mannréttindakaflinn er færður úr VII. kafla yfir í II. kafla og er þannig fremst í nýju stjórnarskránni, á eftir undirstöðukaflanum.

Mannréttindakafli núgildandi stjórnarskrár var uppfærður á sama tíma og mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi enda var nauðsynlegt að uppfæra íslensk mannréttindaákvæði samhliða lögfestingu sáttmálans. Þetta voru stjórnarskipunarlög nr. 97/1995 en þau fólu í sér mikla réttarbót hvað varðar vernd mannréttinda á Íslandi. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar hefur staðið óhreyfður síðan þrátt fyrir þá miklu og öru þróun sem hefur orðið í samfélaginu í kjölfarið. Internetið og samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt samfélagsgerðinni og því hvernig við eigum samskipti og hvaða réttindi við teljum að stjórnvöld eigi að tryggja borgurum sínum. Hrunið breytti sýn okkar á samfélagið og neyddi þjóðina til að endurmeta gildi sín eins og sést vel í aðfaraorðum nýju stjórnarskrárinnar.

Allar mannréttindagreinarnar í núgildandi stjórnarskrá voru uppfærðar að einhverju leyti í nýju stjórnarskránni en hún felur einnig í sér ýmis mikilvæg nýmæli í mannréttindavernd. Í fyrsta lagi má nefna 5. gr. um vernd mannréttinda. Samkvæmt greininni ber handhöfum ríkisvalds að virða mannréttindi og tryggja að allir fái notið þeirra réttinda og þess frelsis sem í stjórnarskránni felst. Í 7. gr. segir að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. Þetta er nýtt ákvæði sem byggir á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum eins og 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem tryggir þennan mikilvæga og meðfædda rétt. Þá má nefna 8. gr. um mannlega reisn. Um nýtt ákvæði er að ræða sem hefur það að markmiði að festa í sessi hugmyndafræðilegan grunn mannréttindaverndar sem felst í virðingu fyrir mannlegri reisn og fyrir margbreytileika mannlífs. Ákvæðið byggir á 1. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Sambærilegt ákvæði má einnig finna í 1. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, Grundgesetz, með leyfi forseta:

„Die Würde des Menschen ist unantastbar. Sie zu achten und zu schützen ist Verpflichtung aller staatlichen Gewalt.“ Eða á íslensku: Mannleg reisn er ósnertanleg. Að virða hana og vernda er skylda alls ríkisvalds.

Þetta er mikilvæg grundvallarforsenda þýsku stjórnarskrárinnar. Skyldi engan undra. Það er mikilvægt að hafa það í stjórnarskrá að það sé hlutverk okkar allra að vernda mannlega reisn.

En áfram um nýmæli, virðulegi forseti. 10. gr. nýju stjórnarskrárinnar fjallar um vernd gegn ofbeldi. Í greininni segir að allir skuli njóta verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi innan heimilis og utan. Mörgum andstæðingum hefur fundist þetta ákvæði vera óþarfi, m.a. þar sem vernd gegn ofbeldi er að finna í almennum hegningarlögum — og það er rétt. Ég hef veitt því athygli að þessir úrtölumenn eru alla jafna karlmenn og kann það mögulega að hafa áhrif á afstöðu þeirra að nóg sé gert í vernd ríkisins gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi eða heimilisofbeldi. En ég og margar konur, veit ég, erum ósammála þessum óþurftarrökum vegna þess að vissulega er þörf og nauðsyn að festa þessa mikilvægu vernd gegn ofbeldi í stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. 17. gr. frumvarpsins fjallar um upplýsinga- og þátttökurétt og um möguleika almennings og fjölmiðla til að fá upplýsingar og gögn frá stjórnvöldum. Hann er hér lögfestur í stjórnarskrá. Það er gríðarlega mikilvægt ákvæði sem felur í sér upplýsingarétt almennings í fyrsta sinn í stjórnarskrá. Þetta á líka við um 18. gr. um frelsi fjölmiðla og 24. gr. um frelsi menningar og mennta ásamt nýju ákvæði sem tryggir menningarleg réttindi, t.d. akademískt frelsi og frelsi listamanna til listsköpunar. Við höfum nú nýlega séð dæmi þess að ráðherra þessarar ríkisstjórnar lítilsvirði akademískt frelsi, brjóti á því og valti yfir fræðimenn með hroka og yfirgangi. Við hefðum gott af ákvæði sem þessu í stjórnarskrá.

Þá er í frumvarpinu að finna mikilvæg ákvæði um rétt til bestu mögulegu heilsu, þ.e. í 26. gr. frumvarpsins. Ég hef heyrt ýmsa andstæðinga, oft lögfræðimenntaða menn, spyrja í forundran hvað þessi réttur til heilsu sé eiginlega, hvað hann þýði nú eiginlega. Auðvitað nær það engri átt, virðulegi forseti, að lögfróðir menn láti eins og þeir hafi aldrei heyrt um ein af mikilvægustu félagslegu réttindunum sem Ísland hefur undirgengist að virða. Auðvitað þekkja þeir réttinn til bestu mögulegu heilsu, en kunni þeir ekki inn á þessi mikilvægu félagslegu réttindi get ég bent þeim á vefsíðuna rettindagatt.is þar sem rétturinn til bestu mögulegu heilsu er útskýrður á auðlesnu og aðgengilegu máli þeim til glöggvunar. Þetta eru mikilvæg réttindi. Þetta eru réttindi sem oft hafa komið til tals undanfarið. Skyldi engan undra enda er forsenda þess að við beitum jafn ríkum takmörkunum og við erum að gera akkúrat núna að til standi að vernda líf og heilsu manna með þeim takmörkunum sem settar eru á frelsi fólks. Loks má nefna önnur mikilvæg félagsleg réttindi eins og rétt til menntunar, réttindi barna og ákvæðið um í hvaða tilfellum megi takmarka mannréttindi, á hvaða hátt það skuli gert og hvaða mannréttindi sæti engum takmörkunum. Þar erum við t.d. að tala um bann við pyndingum sem má bara aldrei standa að.

Virðulegur forseti. Eins og sést og heyrist á þessari löngu upptalningu felur þetta frumvarp í sér margvíslegar úrbætur á gildandi stjórnarskrá. Staða mannréttindaverndar og vernd borgararéttinda væri miklu traustari og öflugri hér á landi ef þetta frumvarp tæki gildi sem hin nýja íslenska stjórnarskrá.

Snúum okkur nú að þeim kafla frumvarpsins sem inniheldur, að mínu mati og margra annarra, helstu ástæður þess að þjóðarviljinn hefur verið virtur að vettugi hingað til, kaflanum sem inniheldur auðlindaákvæðið góða. Þetta er III. kafli frumvarpsins sem nefnist Samfélag og náttúra. Þar er að finna ákvæði um samfélag og náttúru og ýmis nýmæli, t.d. um dýravernd og menningarverðmæti. En einna mikilvægust eru ákvæði um náttúru Íslands og nýtingu náttúrugæða og áðurnefndar náttúruauðlindir. Í 34. gr. segir að náttúra Íslands sé undirstaða lífs í landinu, öllum beri að virða hana og vernda. Í því felist að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum og með lögum skuli tryggja að allir hafi aðgang að óspilltri náttúru og að nýtingu náttúrugæða skuli haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og að gildi náttúrunnar og hagsmunir komandi kynslóða séu virt.

Í 35. gr. er svo þetta mikilvæga og erfiða ákvæði um náttúruauðlindir, það ákvæði sem mest hefur verið rætt um undanfarin misseri. Samkvæmt greininni eru auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Auðlindaákvæðið festir í stjórnarskrá þá meginreglu að þjóðin, sem er eigandi auðlindarinnar, eigi rétt á því að hún sjálf fái að haga nýtingu hennar og þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni sitji hagnaðurinn ekki eftir hjá útgerðarrisum heldur skili sér til eigandans, þjóðarinnar. Þetta er það nýja sem stjórnarskráin tryggir. Og hér, virðulegi forseti, stendur hnífurinn rækilega í kúnni vegna þess að þeir sem ráða ríkjum, þeim finnst þjóðin ekki geta átt neitt og að hún eigi alls ekki að fá þessa peninga sem örfáir útvaldir vinir fá fyrir auðlindirnar.

Aðeins að tæknilegum atriðum þessa mikilvæga ákvæðis, virðulegi forseti. Talsvert hefur verið rætt um orðalag 5. mgr. 35. gr. í þessu frumvarpi þar sem kveðið er á um leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda og að það megi aðeins veita gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Eins og allir sem nokkurn tímann hafa komið að þessu máli vita var orðalaginu breytt í meðförum þingsins á sínum tíma en í tillögum stjórnlagaráðs var kveðið á um að greiða skyldi fullt gjald fyrir afnotin. Ég vil því koma aðeins inn á þann skilning sem við leggjum í fullt gjald og sanngjarnt og eðlilegt gjald. Þegar kemur að auðlind á markaði, eins og fiskveiðiauðlindinni, á þjóðin auðvitað rétt á því að fá fyrir hana fullt gjald. Við sem flutningsmenn málsins hér á þingi teljum okkur þó ekki hafa umboð til að breyta frekar og eftir eigin hentisemi frumvarpstextanum eins og hann lá fyrir í lok þings árið 2013. Ef gera á frekari breytingar á ákvæðinu verður að gera það annaðhvort með þinglegri meðferð eða jafnvel með aðkomu almennings. Það sem við gerðum þó við framlagningu málsins að þessu sinni var að skýra enn betur hvernig túlka beri þessa grein með því að bæta nýjum kafla við greinarskýringar 35. gr. sem fjallar um hvernig túlka beri þessi orð, „gegn eðlilegu gjaldi“. Eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Orðalagið „gegn eðlilegu gjaldi“ ber að túlka með hliðsjón af 4. mgr. greinarinnar þar sem áskilið er að við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Með orðinu almannahagur er m.a. vísað til þess að þjóðin eigi auðlindirnar og geri sem eigandi þeirra tilkall til arðsins af þeim. Í samræmi við eignarréttarleg sjónarmið er því að meginreglu eðlilegt að tekið sé fullt gjald af nýtingu auðlinda í þjóðareigu. Með fullu gjaldi er átt við markaðsverð, þ.e. hæsta gjald sem nokkur er fús að greiða, t.d. á markaði eða uppboði eða í samningum við ríkið sem umboðsmann rétts eiganda, þjóðarinnar. Sem fyrr greinir er fullt gjald meginreglan og á við í þeim tilvikum þar sem auðlindarenta myndast á annað borð. Ef auðlindanýting er á hinn bóginn með þeim hætti að ekki er um auðlindarentu til einkaaðila að ræða, svo sem vegna samfélagslegra verkefna, rannsókna eða hefðbundinnar nýtingar einstaklinga án verulegrar tekjusköpunar, getur löggjafinn kveðið á um að eðlilegt gjald sé eftir atvikum ekkert eða ákveðið með öðrum hætti en á markaði eða uppboði, svo sem með fastri gjaldskrá. Almennt er gert ráð fyrir að löggjafinn leitist við að ákvarða hlutdeild þjóðarinnar hvorki svo lága að hún verði af tekjum sem henni tilheyra með réttu sem eiganda auðlindanna né svo háa að það hamli nýtingunni og eðlilegri arðsemi af henni sem slíkri að teknu tilliti til fjárbindingar og áhættu.“

Ég vona að þetta skýri aðeins okkar nálgun gagnvart þessu mikilvæga ákvæði og gagnvart þessu orðalagi sem hefur svo lengi verið bitbein í umræðunni þegar kemur að auðlindaákvæðinu.

Snúum okkur nú að IV. kafla frumvarpsins, virðulegi forseti, kaflanum sem snýr að Alþingi. Í frumvarpi stjórnlagaráðs var umfjöllun um Alþingi í III. kafla en vegna breytinga á II. kafla frumvarpsins færist númer kaflans ofar. IV. kaflinn fjallar um verkefni og störf Alþingis og alþingismanna, kosningar til Alþingis og lýðræðislega þátttöku almennings. Þessi kafli frumvarpsins felur í sér viðamestu umbæturnar á gildandi stjórnarskrá. Núgildandi stjórnarskrá byggir að miklu leyti á fyrstu stjórnarskrá Íslands sem við fengum árið 1874 frá Danmörku. Nefnist hún Stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands. Á þeim tíma var Ísland undir konungsveldi Danmerkur og stjórnarskráin endurspeglaði það eðlilega. Þegar Ísland varð svo fullvalda og sjálfstætt lýðræði árið 1944 fengum við nýja stjórnarskrá sem er í gildi enn þann dag í dag. Sú stjórnarskrá byggðist að miklu leyti á grunni gildandi stjórnarskrár. Það má því segja að ekki hafi farið fram raunveruleg heildarendurskoðun heldur hafi einungis verið gerðar nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni við það tækifæri og raunverulega heildarendurskoðunin geymd. Hlutverk og stjórnskipuleg staða Alþingis gagnvart öðrum örmum ríkisvaldsins er því á mörgum stöðum óljós í núgildandi stjórnarskrá og byggir jafnvel frekar á túlkun og hefð en raunverulegum og skýrum lagaákvæðum. Nýja stjórnarskráin kveður með skýrum hætti á um skipulag og starfshætti Alþingis. Þremur meginverkefnum Alþingis, löggjafarstarfi, þingeftirliti og fjárstjórnarvaldi, er sérstaklega lýst í grein um hlutverk þingsins, reglum um meðferð þingmála er breytt talsvert auk þess sem sérstakri grein um meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála er bætt við. Eftirlitshlutverk þingsins er styrkt og staða stjórnarandstöðunnar og minni hlutans er efld. Skilyrði til greiðslna úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er þrengd og heimild til að veita ríkisábyrgð á einkaskuldum þarf að helgast af almannahagsmunum. Þá er sett á fót nefnd sem nefnist lögrétta sem kosin er af Alþingi og gefur álit um stjórnskipunarlegt gildi lagafrumvarpa.

Það blasti við okkur, virðulegi forseti, í efnahagshruninu sem reið yfir árið 2008 að ýmsir þættir í stjórnskipun Íslands virkuðu alls ekki sem skyldi. Það var nauðsynlegt að gera úrbætur. Þetta kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna sem og á þjóðfundunum 2009 og 2010. Meðal þeirra niðurstaðna sem komu fram á þjóðfundinum 6. nóvember 2010 var krafa um temprun valds í stjórnskipun landsins, að skerpa yrði á aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds, að styrkja þyrfti stöðu Alþingis og að efla þyrfti stjórnsýsluna. Nýja stjórnarskráin gerir einmitt það. Hún nefnir líka sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nýja stjórnarskráin eykur á sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, m.a. með því að skýra og skerpa á eftirlitshlutverki þingsins og leggja áherslu á að auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Til að ná fram þessari styrkingu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu er í frumvarpinu að finna víðtækar breytingar sem ég ætla að fara yfir nú.

Í fyrsta lagi felur hún í sér að Alþingi kjósi forsætisráðherra í beinni opinni kosningu. Þannig er það skýrt enn betur að forsætisráðherra og ríkisstjórn ráðherra situr í skjóli meiri hluta þingsins og er það ítrekað með samspili við skýrt ákvæði um vantraust. Í öðru lagi er löggjafarhlutverk þingsins bætt. Alþingi verður eini handhafi löggjafarvaldsins og forseti kemur ekki lengur að því enda kemur hann ekki að framlagningu mála frá ríkisstjórn. Áskilið er að frumvörpum skuli fylgja mat á áhrifum og möguleikinn er opnaður á að frumvörp fari í tvær umræður frekar en þrjár. Þá mun fjórðungur þingmanna geta vísað frumvarpi til Lögréttu. Forseti mun þó áfram hafa synjunarvald og geta sent mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þriðja lagi verður Alþingi aðeins rofið með ályktun þingsins sjálfs en ekki samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra eins og nú er. Þá er afnumin heimild forsætisráðherra til að gefa út bráðabirgðalög. Löggjafarvaldið er Alþingis og það á eitt að fara með það vald. Þá sitja ráðherrar ekki lengur á þingi og verða þingmenn sem verða ráðherrar að víkja úr þingsæti sínu. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt skref í átt að aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds og eykur sjálfstæði þingsins til muna. Eftirlit fjárlaganefndar þingsins með greiðslum úr ríkissjóði utan fjárlaga er stóreflt. Þá eru mikilvægar sjálfstæðar eftirlitsstofnanir þingsins festar í stjórnarskrá, þ.e. umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Loks eru Alþingi fengin ýmis önnur og aukin verkefni til eftirlits með framkvæmdarvaldinu. Meðal þeirra má nefna að kveðið er á um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í stjórnarskrá.

Þá kveður frumvarpið á um ýmsar breytingar sem styrkja stöðu minni hlutans og munu koma til með að auka samráð á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi. Forseti Alþingis verður kjörinn með tveimur þriðju hluta atkvæða og víkur hann frá almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Þetta er til þess fallið að efla traust alls þingsins til forseta og tryggja að hann starfi raunverulega í umboði allra þingmanna en ekki bara meiri hlutans. Loks munu ýmis mál sem krefjast þinglegrar meðferðar og samþykktar þurfa kosningu frá auknum meiri hluta, þ.e. atkvæði aukins meiri hluta þingmanna, tveggja þriðju hluta.

Þegar kemur að alþingiskosningum, virðulegi forseti, er í frumvarpinu að finna talsverðar breytingar frá gildandi stjórnarskrá. Í frumvarpinu, eins og það er lagt fram hér, er kveðið á um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skuli vega jafnt eftir því sem unnt er. Þá er í frumvarpi stjórnlagaráðs kveðið á um heimild til að skipta landinu upp í kjördæmi, flest átta. Þessi takmörkun hefur síðan verið fjarlægð eftir meðferð þingsins. Kveðið er á um heimild kjósenda til að velja annaðhvort lista eða kjósa einstaka frambjóðendur í persónukjöri. Það sem stendur hér sérstaklega upp úr er að nýja stjórnarskráin tryggir lýðræðið miklu betur þar sem atkvæðavægi verður jafnt, öfugt við það sem nú er. Rödd allra mun hafa sama vægi, óháð því hvort viðkomandi býr í miðbæ Reykjavíkur, Breiðholtinu, Skagafirðinum, á Akureyri eða Egilsstöðum. Í kaflanum er einnig að finna frekari umbætur sem eru fallnar til þess að tryggja gagnsæi í störfum Alþingis og alþingismanna. Til dæmis fjallar 51. gr. um hagsmunaskráningu þingmanna og hvenær þeir eru vanhæfir til að fjalla um þingmál. Þá er enn fremur kveðið á um styrki til frambjóðenda og samtaka þeirra í 52. gr.

Í nýju stjórnarskránni er líka að finna ákvæði um forseta Íslands, í V. kafla. Samkvæmt frumvarpinu skal forseti ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil. Lagðar eru til breytingar á kosningu til embættis forseta. Munu kjósendur geta raðað frambjóðendum í forgangsröð og mun sá sem best uppfyllir forgangsröðun kjósenda vera réttkjörinn forseti. Lagðar eru til töluverðar og mikilvægar og nauðsynlegar breytingar á valdheimildum forseta. Í núgildandi stjórnarskrá er á nokkrum stöðum kveðið á um tiltekin hlutverk forseta á meðan aðkoma hans er í raun einungis formlegs eðlis þar sem hann lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Samkvæmt frumvarpinu mun forseti ekki lengur hafa valdheimildir til framlagningar stjórnarfrumvarpa, útgáfu stjórnvaldsfyrirmæla né gerðar þjóðréttarsamninga. Þá mun forseti heldur ekki lengur hafa vald til þess að rjúfa þing. Þess skal þó getið að forseti hefur áfram heimild til að synja frumvörpum um undirskrift og senda mál til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í sjötta kafla nýju stjórnarskrárinnar er fjallað um ríkisstjórn og ráðherra. Þar er fjallað um ríkisstjórn og myndun hennar, verksvið ráðherra og ábyrgð, vantraust á ráðherra, starfsstjórnir og önnur tengd atriði. Greinarnar eru mun ítarlegri en þær sem eru í núgildandi stjórnarskrá. Þá er fjallað nánar um ráðherra, hlutverk þeirra, ábyrgð og skyldur. Ákvæði núgildandi stjórnarskrár um framkvæmdarvaldið, ráðherra og ríkisstjórn standa nánast óbreytt frá árinu 1874. Með nýju stjórnarskránni þurfa þingmenn að víkja úr þingsæti á meðan þeir gegna embætti ráðherra og hafa ekki atkvæðisrétt í þinginu þó að þeir geti enn mælt fyrir málum, svarað fyrirspurnum og flutt skýrslur. Það nýmæli er í frumvarpinu að ráðherrar bera sannleiksskyldu gagnvart þinginu. Og ráðherraábyrgð er loks miklu skýrari en í gildandi stjórnarskrá. Í 97. gr. er kveðið á um lagalega ábyrgð ráðherra vegna embættisverka og um málsmeðferð til að koma slíkri ábyrgð fram.

Forseti. Samantekið eru þetta gríðarlegar réttarbætur sem ný stjórnarskrá, grundvölluð á tillögum stjórnlagaráðs, felur í sér fyrir lýðveldið Ísland. Við erum að tala um betri mannréttindavernd. Við erum að tala um miklu meiri ábyrgð valdhafa gagnvart kjósendum sínum. Við erum að tala um upplýsingarétt almennings, tryggðan í stjórnarskrá. Við erum að tala um auknar kröfur á gagnsæi um ákvarðanir valdhafa. Og við erum að tala um auðlindir í þjóðareign. Þetta ætti ekki að vera flókin umræða. Þetta ætti ekki að vera mál sem er búið að fljóta um í einhverjum ótrúlegum rangala hér á Alþingi í átta ár frá því að þjóðin samþykkti að leggja skyldi þessi drög til grundvallar nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland fyrir átta árum.

Eins og ég kom að í upphafsorðum mínum, virðulegi forseti, getum við ekki með góðu móti kallað okkur lýðræðisríki. Ísland og íslenska ríkisstjórnin getur ekki sagst standa fyrir lýðræði og vera ríkisstjórn í lýðræðisríki ef hún hunsar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu, ef hún hunsar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Samþykkt nýju stjórnarskrárinnar er grundvallarspurning um að auka traust á Alþingi, um að auka traust á stjórnmálum. Hvers vegna ætti þjóðin að treysta ríkisstjórn sem hlustar ekki á hana? Hvers vegna ætti þjóðin nokkru sinni að taka aftur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu ef niðurstöður þjóðarinnar eru síðan hunsaðar? Mér finnst ótrúlega dapurt að búa í landi þar sem átta ár hafa liðið frá því að þjóðin, stjórnarskrárgjafinn, komst að þeirri niðurstöðu að hún vildi nýjan samfélagssáttmála fyrir Ísland, að hún vildi nýjan samning, að hún vildi nýtt regluverk um hvernig hinir kjörnu fulltrúar, valdhafar á Íslandi, fengju að haga sér, hvaða leikreglur gildi á Íslandi. Það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Það er þjóðin sem hefur það umboð að setja okkur sem hér stöndum leikreglur. Það er ekki einstakra stjórnmálamanna, það er ekki formanna flokkanna, það er ekki forsætisráðherra að leika sér með það.