151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar á það er bent að vissulega geti þingmenn lagt fram þær breytingartillögur sem þeim sýnist þá líður mér svolítið eins og það sé verið að segja við mig að ég megi vera dónalegur, að ég megi vera leiðinlegur. Það er alveg rétt, virðulegi forseti, en það þýðir ekki að það sé rétt og það þýðir ekki að það sé eitthvað sem við ættum að reyna að gera. Þegar kemur að því að virða þjóðarviljann, sem aftur er siðferðisleg spurning hvers og eins, þá hljótum við að leitast við að leggja fram breytingar sem eru í samræmi við þjóðarviljann eins og hann birtist 2012, jafnvel þó að við séum ekki persónulega hrifin af því. Ég er t.d. mjög andvígur því að það sé nokkurs konar þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá, mér finnst pælingin fáránleg, algerlega fáránleg, en ég er meðflutningsmaður á þessu máli vegna þess að við klárum þetta mál og förum síðan í hitt debattið. Við þurfum að klára þjóðarviljann eins og hann birtist okkur og leggja okkar af mörkum til að bæta málið frekar en að standa í vegi fyrir því. Þetta er bara siðferðisspurning sem hver þingmaður verður að eiga við sjálfan sig. Hvað varðar Ragnarsprófið þá er það rétt, held ég, hjá hv. þingmanni, að ef maður miðar við almannahagsmuni, það sem auki almannahagsmuni, þá lendir maður fljótt í vandræðum því að við erum í svo miklum grundvallaratriðum ósammála um það. Þess vegna þykir mér þó skárra að miða við réttindi borgaranna, lýðræðisleg réttindi eins og t.d. aðkomu kjósenda að ákvarðanatöku eða einstaklingsfrelsið, þ.e. frelsi borgarans frá ofvaldi. Það er rétt hjá hv. þingmanni að stundum er þetta óljóst en stundum er þetta mjög ljóst og alla vega þegar ljóst er hvort við séum að draga úr lýðræðislegum réttindum eða auka þau þá ætti það að geta liðsinnt okkur að mínu mati nógu vel hvað varðar þær breytingar sem gerðar hafa verið, að mér vitandi.

Síðast en ekki síst vil ég minna á að það er ekki endilega okkar að sníða múrana að valdi okkar og þess vegna finnst mér vel koma til greina, og ágætishugmynd, að vísa málinu aftur á einhverju stigi til einhvers konar stjórnlagaþings eða nánara almenningssamráðs (Forseti hringir.) til að taka ákvarðanir um slíka hluti án þess að okkar eigin pólitísku hagsmunir, sem kjörinna fulltrúa, séu að þvælast fyrir.