151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni innblásna ræðu. Mig langar að spyrja hann, því að ég er að reyna að skilja það, um þann texta sem við erum að vinna með og töluvert hefur verið rætt um. Eins og hér hefur komið fram, og í máli hv. þingmanns og fleiri, erum við núna að vinna með textann eins og hann lítur út eftir umfjöllun hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá 2013. Sá texti, eins og liggur í augum uppi, hefur aldrei verið borinn undir þjóðina. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að nákvæmlega sú vinna, sem nákvæmlega þeir þingmenn sem sátu í nákvæmlega þeirri þingnefnd á nákvæmlega þeim tíma unnu, er okkur það heilög að henni megi ekki breyta, en ekki vinnu sem t.d. núverandi þingmenn sem sitja í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undir forystu hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gætu skilað af sér? Kannski önnur vinna sem liti öðruvísi út af því að ýmislegt hefur breyst á átta árum.

Ég fæ raunverulega ekki skilið hvernig hægt er að tengja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar við það að þjóðin hafi valið þennan texta mörgum mánuðum fyrr en nákvæmlega þessi texti varð til. Ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman. Það er búið að breyta drögum stjórnlagaráðs. Við hv. þingmaður erum sammála um að það megi. Hv. þingmaður vill frysta tímann við hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frá 2013 en ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2020. Af hverju?