151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef fengið þessa hugmynd með því að hlusta á umræður um stjórnarskrármál, sérstaklega í tengslum við undirskriftasöfnun nú undanfarið. En látum það vera, við getum rætt það síðar. Hv. þingmaður talar mikið um þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012, í október ef ég man rétt, og mikilvægi þess að virða hana. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við getum almennt valið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni hvað við kjósum að virða. Nú vill svo til að sex spurningar voru bornar undir þjóðina í umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ein af þeim sex spurningum hljóðar eitthvað á þá leið að þjóðin er spurð hvort hún vilji hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá, og nú er þjóðkirkja sérstakt lagalegt hugtak. Meiri hluti kjósenda samþykkti það. Telur hv. þingmaður að við þurfum ekki að virða vilja þjóðarinnar hvað varðar þjóðkirkju í þjóðaratkvæðagreiðslunni? Ástæðan fyrir því að ég spyr, forseti, er sú að hv. þingmaður er einn af flutningsmönnum frumvarps sem gengur einmitt gegn þessari niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem hv. þingmaður vill endilega að við virðum. Hv. þingmaður er einn af flutningsmönnum frumvarps sem gengur út á aðskilnað ríkis og kirkju, án þess að ég taki afstöðu til þess máls, það getur meira en verið að ég sé sammála hv. þingmanni með það. En ég hélt, af því að hlusta á hv. þingmann og fleiri skoðanasystkini hans, að það væri mantra okkar núna að virða þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það bara við um ákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni, forseti, sem hv. þingmanni hugnast? Getur hann valið hvaða ákvæði úr þjóðaratkvæðagreiðslunni, hvaða vilja þjóðarinnar hann ætlar að virða og hvaða vilja hann ætlar að hunsa?