151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, sú gerð málsins sem er frá árinu 2013 er ekki heilög, sem þáverandi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd útbjó. En málið er bara þar statt. Það sem er heilagt, það er að fara að þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar ég var að undirbúa mig undir þessa umræðu í dag skoðaði ég ræðu sem ég flutti um þetta mál á síðasta þingi. Mér fannst kafli í þeirri ræðu eiga fullt erindi hér og ég mun fara með hann aftur. En áður en að því kemur langar mig að hugleiða aðeins orð.

Það orð sem mig langar að nota tækifærið til að hugleiða er orðið „ráð“ sem er stutt, skemmtilegt og merkilegt orð og á sér merkilega sögu í íslenskri stjórnskipan. Þegar Íslendingar voru að fá heimastjórn og hafinn var undirbúningur að því ferli í samráði við dönsk yfirvöld, þá stóð til að íslenska orðið yfir danska orðið „minister“, og alþjóðlega orðið „minister“, yrði „ráðgjafi“. Það var ævinlega talað um hver yrði ráðgjafinn. Síðan breyttist það orð einhvers staðar í ferlinu. Ég veit ekki nákvæmlega hvar og hvernig, ég þekki því miður ekki þá sögu. Kannski eru aðrir hv. þingmenn betur að sér í þeirri sögu en ég. En það orð, ráðgjafi, breyttist yfir í „ráðherra“. Hannes Hafstein, sem var fyrsti ráðherrann okkar, hlaut sem sagt þann titil að vera ráðherra en ekki ráðgjafi. Mér hefur alltaf fundist að þessi breyting segi einhverja sögu um viðhorf íslenskra ráðamanna til valdsins sem þeim er ætlað að framkvæma og þeim er ætlað að hafa. Ráðherra er ekki fallegt orð og það verður æ ljótara með árunum. Ráðgjafi er hins vegar fallegt orð og kem ég þá að þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég vék að í upphafi máls míns.

Hún var sögð vera ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Nú á sú þjóðaratkvæðagreiðsla átta ára afmæli, átti það í gær, og við höfum séð hvernig íslenskir ráðamenn hafa leitað allra leiða til að komast undan því að fara að þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og eru enn að klóra sér í hausnum yfir því hvernig þeir eigi að komast undan því að fara eftir henni, og þá verður það einhvern veginn fyrir þeim að hún hafi bara verið ráðgefandi, það er ekkert að marka hana, vegna þess að það er mjög lítilsiglt að vera ráðgjafi og er í raun ómark. Annaðhvort er maður ráðherra og maður ræður þessu og hefur þetta bara eins og þetta á að vera eða maður er ráðgjafi og þá er ekkert að marka það sem maður segir. Þetta endurspeglaðist líka dálítið í því hvernig stjórnlagaþing varð að stjórnlagaráði, þó að ég ætli ekki að fara að þræta um niðurstöðu Hæstaréttar sem varð til þess að ógilda kosninguna til stjórnlagaþings og ég ætla ekki að fara frekar út í það. Engu að síður varð þing að ráði og fékk þar með einhvers konar ráðgjafarhlutverk.

Það er líka annað orð sem leitaði dálítið á mig í dag og það er orðið flugvöllur. Við eigum tvo merkilega flugvelli í grennd við Reykjavík og inni í miðri Reykjavík, það er annars vegar Reykjavíkurflugvöllur og hins vegar Keflavíkurflugvöllur. Hvort tveggja eru þetta mjög mikilvægar stofnanir í íslenskum samgöngum og gegna mjög mikilsverðu hlutverki en þeir eru ekki gerðir af Íslendingum, þeir eru ekki búnir til af Íslendingum og þeir eru ekki miðaðir við íslenskar aðstæður. Breski herinn bjó til Reykjavíkurflugvöll og svo var það bandaríski herinn sem lagði Keflavíkurflugvöll og gerði það eftir sínum þörfum og eftir sínum forsendum en ekki eftir íslenskum forsendum. Íslendingar hafa ekki enn haft rænu í sér til að búa sér til sjálfir sinn flugvöll.

Stjórnarskrá er náttúrlega ekki flugvöllur en stjórnarskrá líkist engu að síður flugvelli í því að þar er ákveðinn grundvöllur, sem er grundvöllur þess að geta hafið sig til flugs og er grundvöllur allrar hreyfingar í samfélaginu. Sá grundvöllur þarf að vera lagður eftir þeim forsendum sem ríkja í samfélaginu sjálfu. Þess vegna þarf fólkið í samfélaginu sjálfu að koma að því að leggja þann grundvöll. Það þarf að ríkja sátt um það hvernig farið er að því að gera það.

Virðulegur forseti. Þá kem ég að því, svona bráðum, að fara að lesa úr ræðu minni frá því fyrir ári. En áður en ég geri það langar mig þó til að minnast á eitt vegna þess að ég hef haft ánægju af því að hlusta á vel samdar og vel fluttar ræður um þetta mál hér í dag og þar á meðal ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar sem sagði frá rannsóknum sínum og samanburði, sínum nákvæma textasamanburði, á ríkjandi stjórnarskrá og svo þeim tillögum sem við erum að tala um hér. Meðal þeirra tillagna — hann gerði þetta ekki að umtalsefni í ræðu sinni — sem eiga að detta út er 30. gr. núgildandi stjórnarskrár sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“

Að svo miklu leyti sem þessi grein er skiljanleg þá er hún hættuleg, að mínu mati. Til forsetaembættisins getur valist einstaklingur sem af valdasýki ákveður að virkja þessa grein, rétt eins og 26. gr., sem allir héldu að væri dauður bókstafur, var virkjuð á sínum tíma af þáverandi forseta, og það dettur engum í hug að tala um hana sem dauðan bókstaf lengur. Það væri líka hægt að virkja svona grein og fara að veita undanþágur frá lögum nánast eftir geðþótta og þarf ekki að fara mörgum orðum um hætturnar sem geta skapast af því fyrir lýðræðið í landinu.

En nú ætla ég, virðulegur forseti, að fara með nokkur orð úr ræðu sem ég flutti á síðasta þingi um sambærilegt mál sem lagt var fram af okkur í Samfylkingunni ásamt Pírötum. Hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin nýja var unnin í löngu og góðu ferli og ég þarf ekki að minna þingheim á hvernig það fór fram. Þar var vandað til verka og unnið af heilindum og sáttfýsi á öllum stigum málsins fram undir það síðasta. En maður hafði engu að síður á tilfinningunni, eins og hefur raunar komið fram í umræðunni hér, að lögmönnum, lögspekingum, stjórnmálafræðingum og sumum alþingismönnum fyndist eins og hér væri kannski verið að hlutast til um þeirra mál. Það væri jafnvel verið að skipta sér af einhverju sem þeim einum kæmi við. Stjórnarskráin væri mál lögspekinga sem fást við að túlka hana og vinna með hana. En það er ekki svo, því miður. Stjórnarskrá verður að sjálfsögðu ekki búin til nema í miklu og nánu samráði við allt það fólk sem kann best til verka og það var líka gert. Hitt er þó algjört grundvallaratriði. Stjórnarskráin er ekki einkamál lögmanna og stjórnmálamanna. Hún varðar okkur öll. Stjórnarskráin snýst ekki bara um grundvöll samfélagsskipanarinnar heldur daglegt líf okkar allra og framtíð barnanna okkar. Þetta snýst um sjálfbærni, mannréttindi, lýðræði, valdið í samfélaginu. Þetta eru grunnlögin okkar allra.

Stjórnarskráin er aldrei alveg útrætt mál og allra síst með greinum eins og 30. gr. sem ég nefndi áðan. Stjórnarskráin er ekki háð náttúrulögmálum eða partur af þeim, hún er ekki eins og veðrið, fjöllin eða hafið. Hún er mannanna verk. Stjórnarskráin er ekki ytri aðstæður sem við höfum ekkert um að segja heldur er stjórnarskráin innri aðstæður samfélagsins sem við sjálf mótum saman. Það gerum við með því að gera sáttmála hvert við annað um ákveðnar grundvallarreglur í samskiptum okkar, grundvallarleikreglur í samfélaginu, grundvallarlög, enda heitir stjórnarskráin í nágrannalöndum okkar grunnlög, grundvallarlög. Hún er grundvöllurinn undir öllu, lifandi plagg.

Hver er nauðsyn á að breyta stjórnarskrá eða fá nýja stjórnarskrá? Margir spyrja sig þeirrar spurningar. Af hverju þurfum við að vera eitthvað að breyta þessu? Er þetta ekki bara ágætt eins og það er? Myndi ekki bara óvissa fylgja þessu? spyrja margir. Þá held ég að því sé til að svara að núgildandi stjórnarskrá fylgir óvissa. Manni finnst stundum þegar maður horfir á íslenskt samfélag í gegnum áratugina eins og það hafi stundum verið spunnið af fingrum fram af löggjafar- og framkvæmdarvaldi, það hafi verið „impróvíserað“ nánast dag frá degi af helstu valdamönnum sem hafa þá gripið til ýmiss konar lagaúrræða. Þessi nýja stjórnarskrá finnst mér vera viðleitni til að koma á meiri formfestu, meiri lögfestu í íslensku samfélagi sem ég tel fagnaðarefni.“