151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af síðustu orðum hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar get ég verið sammála honum um að það er mikilvægt að auka á stjórnfestu og lögfestu í landinu. Ég er hins vegar ósammála honum um að tillögur stjórnlagaráðs frá 2011 séu til þess fallnar. Reyndar er ég í grundvallaratriðum algjörlega ósammála honum um túlkun á þeim. Ég held að óvissan um túlkun ákvæða muni bara magnast upp og þar sem hún er fyrir munu tillögur stjórnlagaráðs ekki bæta úr heldur auka á óvissuna. Þar má tína margt til.

Í fyrsta lagi er auðvitað um að ræða veigamiklar breytingar sem varða ákvæði um æðstu stjórn ríkisins þar sem fleiri spurningar vakna eftir lesturinn en er svarað, getum við sagt. Sama má segja um þá breytingu sem felst í því að í stað núgildandi ákvæða sem gera ráð fyrir einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslum, sem ég held að séu þrjú, verða mismunandi leiðir til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur sjö, nái tillögur stjórnlagaráðs fram að ganga. Með því er óvissan aukin, bæði um samspil einstakra úrræða og samspil fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis. Þetta er nú atriði sem m.a. Feneyjanefnd, sem stundum er vísað til, vakti athygli á á sínum tíma og var ekki breytt í meðförum þingsins. Óvissa varðandi túlkun mannréttindaákvæða mun aukast með því að breyta orðalagi þeirra og bæta þar verulega í. Fleira má nefna þar sem ég held að tillögur stjórnlagaráðs myndu auka óvissu (Forseti hringir.) verulega um stjórnskipun ríkisins og réttindi borgaranna en ekki hið gagnstæða.