151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

stuðningur ríkissjóðs við sveitarfélög.

[10:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem hv. þingmaður setur á dagskrá, þ.e. hið opinbera og hlutverkaskipti ríkis og sveitarfélaga, tekjuskiptingin þeirra á milli, sjálfstæði sveitarfélaganna. Hér á Íslandi höfum við lagt mjög mikla áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga, sjálfstæða tekjustofna þeirra og ábyrgð á eigin málaflokkum. Það birtist okkur t.d. í því að hér á Íslandi er umfang sveitarstjórnarstigsins í heildarútgjöldum hins opinbera mun lægra en t.d. á við á Norðurlöndunum.

Þá eru ýmiss konar tilfærslur og beinn stuðningur frá ríkinu, t.d. gegnum jöfnunarsjóð, mun lægra hlutfall af heildartekjum sveitarfélaga en á við á þessum sömu stöðum sem ég hef verið að vísa til, þ.e. á Norðurlöndunum. Þar eru verkefni sveitarfélaganna sömuleiðis mun umfangsmeiri, þau eru færri og telja miklu fleiri íbúa að jafnaði en á hlutfallslega við hér.

Með þessu er ég að vekja athygli á því að það hefur afleiðingar að reka þá stefnu sem við höfum keyrt á Íslandi, að leggja svona mikla áherslu á sjálfstæða tekjustofna sveitarfélaga, sjálfstæði þeirra og ábyrgð á eigin málum. Það má lýsa því í mjög grófum dráttum þannig að þegar vel gengur fleyta sveitarfélögin dálítið rjómann af því og fá til sín mikla aukningu og fara tiltölulega létt í gegnum slíkt skeið. En á hinn bóginn, þegar ekki árar eins vel þá ráða þau varla við breytinguna. Ég tel að sú staða sem upp er komin, m.a. í samtali við sveitarfélögin, kalli á miklu dýpri spurningar en bara þá hvort ríkið ætli núna að reiða fram milljarðatugi til að leysa einhvern vanda til skamms tíma. Það kallar á miklu dýpri spurningar en það. En að sjálfsögðu ætlar ríkið að standa við það sem við höfum sagt. Við höfum nýlega gengið frá samkomulagi við sveitarfélögin um að standa með þeim og höfum staðið í fjölþættum aðgerðum til þess á þessu ári.