151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

stuðningur ríkissjóðs við sveitarfélög.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Jú, ég get tekið undir það að veik viðspyrna af hálfu þess hluta hins opinbera sem sveitarfélögin eru eða standa fyrir væri ekki gott innlegg inn í þá efnahagsstefnu sem við erum núna að keyra. Þess vegna höfum við verið í margvíslegum aðgerðum til að létta undir með sveitarfélögum. Við höfum farið í gegnum þingið með fjöldann allan af aðgerðum og vorum núna síðast, bara svo ég nefni eitt dæmi, að auka endurgreiðslur vegna framkvæmda sem mun gera þeim auðveldara fyrir að standa í þeim á næsta ári.

Hv. þingmaður segir að það sé meiri beinn stuðningur á Norðurlöndunum. Það er vegna þess að þar er beinlínis að jafnaði miklu meiri beinn stuðningur. Menn eru meira á fjárlögum. Þar er ekki farið með jöfnunarsjóð með þeim hætti sem við gerum hér, að vera með fyrir fram settar formreglur þannig að jöfnunarsjóður sé að ýkja sveiflurnar eins og gerist á Íslandi, heldur horfa menn til hinnar raunverulegu þarfar. (Gripið fram í.) Þess vegna er það sem ég segi að þetta kallar á miklu dýpri spurningar eða dýpri skoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það getur vel verið (Forseti hringir.) að við ættum að ráðast í þá spurningu: Er það þess virði fyrir sveitarfélögin að standa fjárhagslega sjálfstæð eins og þau gera í dag með sjálfstæða tekjustofna, þegar betur er skoðað?