151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

geðheilbrigðismál.

[10:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þunglyndi er einn af algengustu sjúkdómum í heimi og á stóran þátt í örorku. Það verður að taka málefni fólks með þunglyndi eða aðra geðröskunarsjúkdóma föstum tökum. Það er því miður víða pottur brotinn í heilbrigðismálum innan heilbrigðiskerfisins. Illa veikt fólk sem glímir við alvarlega geðröskunarsjúkdóma kemur víða að lokuðum dyrum. Því miður eru bæði börn og fullorðnir með átakanlega reynslu af því að þurfa að leita hjálpar hjá heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Það er fáránlegt að vera með þá átakanlegu reynslu að hringja í geðdeild Landspítalans í neyð og vera sagt að þar sé hjálpina ekki að finna. Að þeim sem eru með alvarlega geðsjúkdóma skuli vera sagt af heilbrigðisfólki að fara fyrst til heimilislæknis. Það er löng bið þar. Það er ekki boðlegt að veikt fólk komi að lokuðum dyrum hjá heilbrigðiskerfinu. Það er til háborinnar skammar. Að það þurfi að fara krókaleiðir í kerfinu til að komast að hjá geðlækni eða inn á geðdeild getur ekki verið rétt, hæstv. heilbrigðisráðherra. Er ekki bráðaþjónusta til staðar fyrir illa veikt fólk með geðsjúkdóma? Eða þarf að bíða í vikur eftir tíma hjá heimilislækni eftir tilvísun til geðlæknis? Börn verða að bíða mánuðum saman eftir hjálp. Það virðist engin hjálp til staðar fyrir börn sem búa hjá foreldrum með geðsjúkdóma. Hvað eru mörg svona göt í kerfinu, hæstv. heilbrigðisráðherra? Hvað þarf að bíða lengi eftir að kerfið virki fyrir alla? Er ekki kominn tími til að við brettum upp ermarnar, hysjum upp um okkur buxurnar og förum að taka á þessum málum? Þetta er dauðans alvara, alveg í orðsins fyllstu merkingu.