151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Jú, ég mun áfram beita mér, að því marki sem þetta heyrir til míns friðar, fyrir því að við gerum betur. Ég veit og ég finn að það er metnaður til að gera betur. Ég segi þetta með einstöku dæmin bara vegna þess að stundum finnst mér að við mætum dálítið vanbúin til umræðunnar, ekki með nægilega djúpar greiningar. Stundum finnst mér að þingið ætti að vera betur í færum til þess að veita aðhald með því að láta framkvæma slíkar greiningar eða kalla eftir því að þær séu unnar og leggja þær síðan til grundvallar dýpri umræðu um þessi mál.

Mig langar líka til að nefna í þessu samhengi, þrátt fyrir að við höfum verið að ræða þetta á forsendum kostnaðar, að við ræðum um þjóðfélagslega kostnaðinn, ekki bara þann sem ríkið þarf að leggja út í krónum og aurum heldur kostnaðinn fyrir samfélagið, fyrir þá sem eiga í hlut, kostnað sem hlýst af því að fólk er frá vinnu, er ekki fullgilt í þátttöku sinni í samfélaginu vegna þess að það er frá sökum (Forseti hringir.) vandamála í hné eða mjöðm eða öxl eða hvar það kann að vera. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og hefur áhrif á samfélagið allt þegar margir eiga í hlut.