151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta mikilvæga mál á þinginu. Ég hef fengið nokkrar spurningar frá málshefjanda sem ég ætla að bregðast við. Hann spurði m.a. hver viðbrögð tollyfirvalda og ráðuneytisins hafi verið við upplýsingum um að misræmi sé á tölum um útflutning búvara frá löndum Evrópusambandsins og innflutningstölum hér á landi. Viðbrögðin við því voru þau að við komum á fót starfshópi til að greina það misræmi. Í morgun birtum við niðurstöður starfshópsins á heimasíðu ráðuneytisins. Þar er m.a. bent á að auka þurfi nákvæmni í skjölun og eftirfylgni við tollafgreiðslu. Þar er misræmi og það gengur í báðar áttir. Stundum eru tölurnar hærri hér á landi en útflutningstölur frá Evrópusambandinu, stundum eru þær lægri. Við viljum fara nánar ofan í það og ég hef þess vegna ákveðið að þeirri vinnu skuli haldið áfram. Við settum starfshópinn saman til að komast skjótt að niðurstöðu um meginatriði og við höfum birt þær niðurstöður og munum þurfa að fara nánar ofan í saumana á þessum atriðum. Verið er að skoða innflutning í rauntíma en einnig aftur í tímann þegar tilefni er til þess.

Sömuleiðis er spurt hver viðbrögð tollyfirvalda og ráðuneytisins hafi verið vegna þess að menn hafi skráð vöru við innflutning í ranga tollflokka. Við höfum tekið mjög hart á því máli. Upp kom tiltekið mál sem varðaði osta, sem ég held að við ættum bara að kalla pitsuosta, sem komu hingað til lands á undanförnum misserum þar sem upphaflega var talið hjá tollinum að nota bæri ákveðinn tollflokk. En eftir ábendingar og nánari skoðun á því var komist að þeirri niðurstöðu að varan væri í eðli sínu mjólkurafurð og ætti heima í slíkum tollflokki. Við höfum rakið tímalínu þess máls til þingnefndar en til að gera langa sögu stutta endaði sú athugun á málinu með því að gefin var út ný auglýsing í fjármálaráðuneytinu til að höggva á þann hnút og taka af skarið um að varan ætti heima með mjólkurvörum en ekki hafa það sem einkenni á henni að hún kæmi úr jurtaríkinu þótt jurtaolíu væri blandað saman við ostinn.

Í því samhengi er auðvitað ástæða til að taka undir að það getur verið skaðlegt þegar vara kemur inn í landið í röngum tollflokki. Það getur skert samkeppnisstöðu. Réttilega er bent á að ríkið verður af tekjum en þegar er verið að ákveða tollflokkinn sem vara á heima í látum við þá niðurstöðu ekki ráðast af því hver tollurinn kynni að verða heldur viljum bara fá faglega rétta niðurstöðu á grundvelli þeirra alþjóðlegu viðmiða sem við höfum skuldbundið okkur til að fylgja. Í þessu tiltekna dæmi var uppi viss vafi en nánari skoðun þurfti til að komast að réttri niðurstöðu. Í því samhengi er erfitt að halda fram að menn hafi verið að misnota kerfið þegar tollurinn hafði skoðun á því að varan ætti heima þar sem hún var flokkuð en við endurskoðunina og eftir að ný auglýsing var gefin út þá ættu breytt viðhorf að hafa tekið við.

Aðeins hefur verið spurt út í samkeppnisstöðuna og ég tek undir með málshefjanda að hún skaðast mjög af því ef menn njóta ekki þeirrar verndar, þeir innlendu framleiðendur sem treysta á verndina sem felst í tollunum. Það getur skaðað mjög innlendra samkeppnisstöðu og allt rétt sem bent var á um stærðarhagkvæmni í öðrum löndum. Þar blandast líka inn alls konar stuðningskerfi og niðurgreiðslur sem hafa áhrif á innflutningsverð til Íslands og geta skekkt samkeppnisstöðuna talsvert. Beinn stuðningur stjórnvalda við framleiðendur á Íslandi dugar sjaldnast til þess að vega það upp án tolla. En á Íslandi lifa tollar í raun og veru eingöngu í dag eftir á matvælum.

Margt er sett hér á dagskrá sem er erfitt að komast yfir í stuttu svari en ég vil bara koma því til leiðar að við viljum taka fast á þessu máli. Við munum koma af stað nýjum starfshópi til að fara nánar ofan í saumana á niðurstöðum þess starfshóps sem skilaði skýrslunni til mín í síðustu viku og var birt í dag. Ég vil í tilefni af orðum sem féllu hér hjá málshefjanda koma því að að auðvitað er það ekki þannig að ekki séu innheimtir tollar hér í samræmi við reglur (Forseti hringir.) heldur kann að vera að innflytjendur gefi upp röng innflutnings- eða tollnúmer. (Forseti hringir.) Það leiðir til rangrar tollunar en þar hafa tollyfirvöld ríkar heimildir til þess að fara langt aftur í tímann og beita álagi þegar það á við.