151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvort það séu mörg sjónarmið í boði þegar sú spurning vaknar hvort það sé í lagi að fólk setji inn röng tollnúmer. Að sjálfsögðu er það ekki í lagi. Að sjálfsögðu ber að rannsaka það, og eins og hæstv. ráðherra fór yfir þá eru ríkar heimildir hjá tollyfirvöldum til að rannsaka slíkt langt aftur í tímann.

Pólitíska spurningin sem mér finnst frekar blasa við er: Hvernig viljum við haga þessu fyrirkomulagi og er þetta fyrirkomulag gott til að halda landbúnaði starfandi í landinu? Ef við lítum á málið sem þjóðaröryggismál og tollverndina sem hluta af því, finnst mér að við ættum að fara að spyrja að því hvort til séu aðrar leiðir, t.d. grunnstuðningur við bændur eða eitthvað því um líkt.

Ef spurningin snýst bara um að vernda viðskiptahagsmuni þá finnast mér persónulega tollar ekkert við hæfi almennt, alveg óháð því hvaða iðnaður á hlut. Ef við lítum á þetta sem þjóðaröryggismál, sem ég geri, þá finnst mér að við eigum að líta til annarra leiða en að leiða fjárhagslega stuðninginn út í verð vörunnar sjálfrar. Því að það er ekki bara fólkið sem kaupir kjötið sem hefur hag af því þjóðaröryggi, það eru allir landsmenn, hvort sem þeir borða kjötið eða ekki. Þótt þeir borði aldrei kjöt hafa þeir hag af því að hér sé innlend landsframleiðsla, þ.e. þegar kemur að þjóðaröryggisvinklinum.

Ég vildi óska þess að í stað þess að við værum að velta fyrir okkur hvað við eigum að tollleggja, og þá hversu mikið, þá myndum við hugsa um lausnir sem ekki fælu í sér viðskiptatakmarkanir, þó þannig auðvitað að við gætum komið til móts við þennan þjóðaröryggisvinkil sem oft er nefndur, réttilega.

Að lokum vil ég nefna að það að vilja afnema tolla eða lækka tolla eða haga fyrirkomulagi tolla öðruvísi þýðir ekki að maður sé á móti landbúnaði á Íslandi. Ég vil endurvarpa þeim orðum, þótt ekki sé ljóst hvort við munum nokkurn tímann ganga endanlega í Evrópusambandið, að mér finnst að bændur verði að hafa aðeins opnari huga fyrir öðrum lausnum en þeim sem lagðar hafa verið fram hingað til. Það er pólitíska spurningin, virðulegi forseti. Hvað varðar það hvort fylgjast eigi með afbrotum og upplýsa um þau og bregðast við þeim, þá held ég að við séum öll sammála um það.