151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:28]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur vill senda skýr skilaboð um að lögbrot verði ekki liðin. Einhverjir halda því fram að hér sé um að ræða misbrest á framkvæmd samninga. En hvernig er hægt að nota slíkt orðalag þegar kerfisbundið er verið að flytja inn mjólk, kjöt, egg og grænmeti fram hjá kerfinu til að komast hjá því að borga skatta í ríkissjóð? Þingmenn Framsóknarflokksins stóðu fyrir því að málið var tekið upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndin hefur ekki lokið umfjöllun sinni. Vinna nefndarinnar og fjármálaráðuneytisins hefur nú þegar staðfest að fullt tilefni er til að skoða þessi mál nánar og það er allra hagur að tollflokkun sé rétt. Í minnisblaði sem barst nefndinni frá Bændasamtökum Íslands kemur fram að árið 2019 hafi verið flutt inn 299 tonn af mozzarella-osti með viðbættri pálmaolíu. Grunsemdir vöknuðu um að þarna kynni að vera á ferðinni vara þar sem uppistaðan væri jurtaostur. Í kjölfarið óskaði MS eftir bindandi áliti skattsins um tollflokkun á tveimur tilteknum vörum. Fjármálaráðuneytið hefur staðfest að þessi mozzarella-ostur eigi að bera toll. Staðan er sú núna að tollyfirvöld eru ekki farin að leggja tolla á þessa vöru, að þetta mörgum mánuðum liðnum. Nú í ágúst voru flutt inn 48 tonn af þessu efni. Til að gera langa sögu stutta nemur innflutningur á jurtaostum enn tugum tonna. Í júlí 2020 voru flutt inn 32 tonn o.s.frv. Ég hef ekki tíma til að telja þetta allt upp en einhvern veginn finnst mér stjórnvöld hafa brugðist allt of seint við.

Ég heyrði að hæstv. fjármálaráðherra talaði um að nýr starfshópur ætti að fara yfir niðurstöður fyrri starfshóps. Er ekki hægt að taka fastar á þessu og vinna málið miklu hraðar? Ríkissjóður verður af miklum fjárhæðum vegna þessa og við erum að setja störf hér innan lands í mikla hættu með því að afgreiða þetta svo silalega.