151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Samfylkingin leggur áherslu á að styrkja umhverfi landbúnaðarins, tryggja rekstraröryggi og afkomu bænda og að rekstrarumhverfi landbúnaðarins sé með þeim hætti að það leiði af sér hagkvæma og vistvæna gæðaframleiðslu. Við í Samfylkingunni teljum að fara þurfi í róttæka endurskoðun á stuðningskerfum landbúnaðarins með hagsmuni bænda og neytenda í forgrunni. Við viljum öflugan landbúnað sem styrkir byggðir landsins. Við viljum auka frelsi bænda og efla nýsköpun með grænni áherslum þannig að bændur geti lifað af mannsæmandi kjörum. Við viljum líka kerfi sem þjónar neytendum. Hagsmunir neytenda og bænda ættu fara saman.

En tollar eru ekki leiðin til að ná þessum markmiðum. Tollaleiðin í landbúnaði hækkar verðið, dregur úr nýsköpun og er ætlað að bjaga markaðslögmálin á neytendamarkaði. Betri leið til stuðnings landbúnaði og dreifðum byggðum eru beingreiðslur og grænir styrkir. Við ættum að líta til Evrópusambandsins í þessum efnum og reynslu bænda og byggða að styrkjakerfi þeirra. En við búum enn við þetta kerfi og þurfum að vinna innan þess í bili. Og tollsvindl er lögbrot. Hér ræðum við brot á samningum í utanríkisviðskiptum. Allir verða að fara að samningum og virða reglurnar. Annars verður samkeppnisstaða þeirra sem breyta rétt verri en hinna sem svindla. Svindlararnir öðlast ólögmætt samkeppnisforskot. Það er grundvallarforsenda fyrir sanngjarnri samkeppni að allir fari að lögum í þessu efni líkt og öðrum.