151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:46]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er góð en svolítið skrýtin og mér heyrist að við séum ekki enn þá öll á sömu blaðsíðu, svo merkilegt sem það nú er. Mig langar til að árétta eitt mikilvægt atriði sem fram hefur komið í dag: Það hefur ekkert með ESB að gera, hvort sem við erum innan eða utan ESB eða hvernig það allt saman er, hvort tollamálin séu í lagi eða ekki. Það sem við þurfum að gera er að fara eftir samningum. Við eigum að skrá vöru rétt og fara eftir því sem lagt er upp með að gera. Ekki að svíkjast um og gera eitthvað allt annað sem bitnar náttúrlega á okkur öllum, samfélaginu öllu. Við vitum það líka öll að ríki í Evrópusambandinu tolla sína vöru, þau vernda sinn landbúnað, það er bara svoleiðis. Og ekki bara ríki í Evrópusambandinu heldur flest ríki í heiminum. Við skulum hafa það á hreinu.

Íslenskir bændur eru í harðri samkeppni við stórbú á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég tel að sú samkeppni sé til góðs en það verður þá að vera rétt gefið. Íslenskir bændur eru oft að keppa við vörur sem njóta hárra styrkja í framleiðslulandinu sem og tollverndar. Það verður að tryggja að þær vörur sem hingað eru fluttar inn frá Evrópska efnahagssvæðinu beri þá tolla sem samið var um. Enn og aftur: Þetta er lykilatriði í þessu máli og það skulum við taka með okkur eftir umræðuna í dag.

En þá spyr maður sig líka varðandi eftirlitið á matvælum: Hvernig er hægt að fylgjast með heilnæmi landbúnaðarvara sem fluttar eru til landsins þegar þessi skráning virðist ekki vera betri en hún er? Hvert er samhengi á milli matvælaeftirlits og tollflokkunar? Nefnt hefur verið að flutt hafi verið út allt að 30 tonnum meira af eggjarauðum (Forseti hringir.) frá Danmörku en til Íslands. Fram hefur komið í fjölmiðlum að fyrir dómstólum er mál þar sem kjöt er flutt inn sem kjöt á beini (Forseti hringir.) en reynist vera kjöt án beins. Víða er pottur brotinn. (Forseti hringir.) Stjórnvöld hafa hafið vinnu við þessa skoðun, en við verðum að hafa hraðar hendur.