Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þessi tollumræða verður sífellt furðulegri. Förum út í tollsvindl. Svindl er svo sem alls staðar í kerfinu, það er ekkert nýtt. En það sem er kannski furðulegast við kerfið er þetta bútasaumaða kerfi bænda sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn er búin að bæta í. En það virkar ekki, bændur hafa það ekkert rosalega gott. Þeir hafa það sífellt verr og þetta verður samanþjappaðra eftir því sem fram líður.

Það er spurning með bændur og milliliði. Það virðist einhvern veginn vera mjög mikið vandamál að taka á því og síðan koma auðvitað þessi tollamál. En að það skuli vera vandamál hvort kjöt er á beini eða ekki, það get ég ekki skilið. (Gripið fram í: Skrá rétt.) Það hlýtur að vera eitthvað mjög furðulegt ef það er mjög flókið mál. Ef við viljum virkilega fá flókið mál inn í kerfið þá spyr ég: Í hvaða toll verður það sett þegar farið verður að prenta kjöt út úr prentara? Í hvaða tollflokk fer það? Vegna þess að við eigum eftir að sjá það. Og ef við vorum að tala um ostlíki áðan þá er þetta kjötlíki og það er framtíðin. Það verður eitthvert vandamál. Hafið þið velt því eitthvað fyrir ykkur? Og ég spyr mig: Hverjir vilja borða þetta? Hvað erum við þá að borða? Ef við höldum að við séum með stórt vandamáli núna þá er það í raun mjög einfalt. Það þarf bara að endurskoða tollalögin og sjá til þess að þau séu rétt. Það getur ekki verið flókið, nema þá auðvitað að einhver segi að það sé bara búið til eitthvert tollnúmer og enginn kanni hvort það sé rétt sé rétt vara sem tollnúmerið er á. Ef svo er spyr ég: Bíddu, hvað er þá tollurinn að gera?