151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að breytingar í tollamálum vegna landbúnaðarvara kalla auðvitað á að við sýnum sérstaka árverkni í eftirliti og framkvæmd samninganna. Ég ætla að segja vegna þess sem hér hefur verið sagt um þessa pitsaosta eða mozzarella-osta, eða hvað þetta er nákvæmlega, að vegna þeirrar nýju auglýsingar sem við gáfum út í ráðuneytinu í sumar hefði átt að fylgjast sérstaklega með þeim tollflokki frá og með því að auglýsingin tók gildi. Það var ekki gert en það er hins vegar verið að gera það núna. Það er búin til sía fyrir þennan málaflokk þannig að það sé skoðað sérstaklega, líkt og á við um þá skoðun sem fer ávallt fram þegar verið er að flytja inn vöru sem fellur undir tollkvótana. Þar er alltaf sérstök aðgát höfð, gáð eftir því að menn séu að flytja inn þá vöru sem þar er undir.

Hvers vegna eru þjóðir almennt með svona mikla vernd fyrir landbúnaðinn og beinan stuðning? Og hvers vegna eru þjóðir að beita tollum? Jú, það eru margar góðar ástæður til þess. Það er ekki bara í tekjuöflunarskyni sem menn gera þetta heldur er tollumhverfið beinlínis hluti af starfsumhverfi landbúnaðarins á hverjum stað. Þannig er að jafnaði aukið við beinan stuðning við landbúnað þegar dregið er úr vernd við landamærin, þegar veittur er greiðari aðgangur að markaðnum.

Hvers vegna eru tollarnir þarna til staðar eða hvernig er hægt að beita þeim? Jú, þeir eru, eins og ég segi, hluti starfsumhverfis matvælaframleiðslunnar en við styðjum með þessum hætti við landbúnaðinn til að tryggja matvælaöryggi. Við erum að jafna samkeppnisstöðu bænda í norðrinu, sem starfa hér við þessar erfiðu aðstæður, gagnvart matvælaframleiðendum í öðrum löndum. Við spörum gjaldeyri með því að styðja við landbúnaðinn. Við aukum virði landsins. Við sköpum með þessu störf og getum verið mjög stolt af þeirri framleiðslu sem á sér stað í landinu. Þetta bætir landnýtingu, styrkir landsbyggðina og gleymum ekki þáttum eins og sjálfbærni og framlagi okkar til loftslagsmála. Við getum haft mikil áhrif (Forseti hringir.) með því að hvetja til innlendrar grænmetisframleiðslu og annarrar framleiðslu í stað þess að vera að flytja yfir hálfan heiminn (Forseti hringir.) vöru sem hægt er að framleiða hér. Að lokum eru það útflutningshagsmunir. Við getum beitt tollunum til að krefjast aðgangs (Forseti hringir.) fyrir útflutningsafurðir okkar í öðrum löndum. Þannig að það eru mörg sjónarmið uppi.

Ég vil þakka fyrir þessa góðu umræðu, þakka fyrir þolinmæði forseta og held að þessi umræða muni halda áfram.