151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

búvörulög.

224. mál
[12:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þingskjali 226, máli nr. 224. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, sem fjallar um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangur þess er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða sem undirritað var þann 14. maí 2020. Samkomulagið er liður í endurskoðun samningsins, sem gerður var 19. febrúar árið 2016, og var það undirritað m.a. með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum.

Markmið samkomulagsins er m.a. að stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkju með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Við næstu endurskoðun samningsins, sem fram fer árið 2023, er markmiðið að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25% miðað við meðalframleiðslu áranna 2017–2019, m.a. í því skyni að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Rétt er að geta þess að auknir fjármunir verða lagðir í garðyrkjusamninginn, 200 millj. kr. á ári. Munu þeir m.a. nýtast til beingreiðslna vegna raforkukaupa, aðgerða í loftslagsmálum, þróunarverkefna og til fjölbreyttari ræktunar á grænmeti hér á landi. Þá bætist við samninginn nýr flokkur, beingreiðsla vegna ræktunar á öðrum grænmetistegundum en gúrkum, paprikum og tómötum. Greiðslurnar hefjast strax á þessu ári. Veittir verða sérstakir jarðræktarstyrkir til útiræktunar á grænmeti og garðávöxtum til manneldis. Þar er m.a. um að ræða allar afurðir til manneldis sem vaxa neðan jarðar, eins og t.d. kartöflur, rófur, gulrætur, næpur og aðrar sambærilegar afurðir. Afurðir sem ræktaðar eru ofan jarðar, svo sem blómkál, hvítkál, kínakál, rauðkál og sambærilegar afurðir, geta einnig notið jarðræktarstyrkja en þar verður upphæð fyrir hvern ræktaðan hektara hærri þar sem kostnaður við þá framleiðslu er umtalsvert meiri en við hina.

Framlög til jarðræktarstyrkja verða um 70 millj. kr. á ári. Auk þess má nefna að samningurinn tryggir þróunarfé til garðyrkjuverkefna. Markmið þess er að styðja við fræðslu, rannsóknir, leiðbeiningarþjónustu og framþróun í garðyrkju, auk þess sem greidd verða aukin framlög til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum í garðyrkju. Markmiðið er að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem lífræn garðyrkjuframleiðsla hefur í för með sér og auka framboð á slíkum vörum á innlendum markaði.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til samræmis við framangreint samkomulag. Lagt er til að 2. mgr. 58. gr. laganna verði breytt á þann veg að hún kveði á um beingreiðslur vegna dreifingar- og flutningskostnaðar vegna raforku í stað niðurgreiðslu. Fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku verður þannig breytt með þeim hætti að ylræktendum verða tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Það er gert til að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar.

Líkt og hér hefur verið rakið er meginmarkmið frumvarpsins fyrst og fremst að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, sem undirritað var 14. maí á þessu ári. Þær breytingar á starfsumhverfi framleiðenda garðyrkjuafurða, sem lagðar eru til með frumvarpinu, eru tvímælalaust taldar stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkju á Íslandi.

Virðulegi forseti. Með samkomulagi ríkisins við bændur eru gerðar grundvallarbreytingar á starfsumhverfi garðyrkjunnar, sem ég hef trú á að muni efla greinina til mikilla muna. Samkomulaginu er, eins og áður var nefnt, ætlað að ná því markmiði að auka framleiðslu íslensks grænmetis um 25% á aðeins þremur árum. Sumir hafa haft að orði að þetta sé nokkuð bratt markmið, eins og stundum er sagt. En þegar við stjórnmálamenn berum gæfu til að skapa atvinnulífinu skýrar og góðar forsendur er að mínu mati fullkomlega raunhæft að setja markmið af því tagi sem hér um ræðir. Með því að hækka árlegt fjárframlag stjórnvalda til samningsins úr 660 millj. kr. í um 860 millj. kr., sýnum við í verki vilja okkar til að efla íslenska garðyrkju. Við sjáum nú þegar að greinin hefur hafist handa við að byggja upp til framtíðar og sækir fram. Ég átti þess kost nýlega að heimsækja nokkra garðyrkjubændur og sjá með eigin augum þá gríðarlegu uppbyggingu sem þar á sér stað og er ánægjulegt að finna þann stórhug og þá bjartsýni sem ríkir í greininni. Ég trúi því að við munum setja okkur enn metnaðarfyllri markmið við endurskoðun samningsins að þremur árum liðnum. Ég vona að við berum gæfu til að stefna enn hærra og ná að tryggja að íslenskir neytendur eigi þess kost að njóta okkar góðu og heilnæmu framleiðslu í enn ríkara mæli en áður. Ég trúi að okkur miði skjótast áfram við að efla íslenskan landbúnað ef frumkvæði, framkvæmdaþróttur og kapp hvers og eins bónda fær notið sín.

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin minnast á að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stefnir að því að setja á fót gagnagrunn og mælaborð sem heldur utan um upplýsingar um matvælaframleiðslu á sviði landbúnaðar á Íslandi, þar með talið garðyrkjunnar. Nauðsynlegt er að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu, m.a. vegna fæðuöryggis. Slíkur gagnagrunnur eykur auk þess gagnsæi. Upplýsingar þar munu endurspegla birgðastöðu innlendra garðyrkjuafurða og verða uppfærðar með reglulegu millibili innan hvers árs.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til greinargerðar sem fylgir því. Þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hæstv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.