151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[13:56]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vísa aðeins í 3. mgr. 5. gr. samkomulagsins sem var gert í nóvember í fyrra milli samgönguráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur:

„Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkomulags þessa.“

Þetta er greinin sem hv. þingmaður var að lesa upp hér rétt á undan. Hver hefur viljinn verið þetta ár til að breyta aðalskipulaginu með tilliti til þessa samkomulags? Hann hefur náttúrlega ekki verið neinn. Það hefur ekkert verið gert sem snýr að aðalskipulagi Reykjavíkur sem kemur fram í þessu samkomulagi, sem var gert í nóvember í fyrra, nákvæmlega ekki neitt. Satt að segja hafa komið svör um að það verði ekkert gert í þá veru að þetta verði sett inn í aðalskipulagið. Það er alvarleiki málsins, hv. þingmaður.

Það eru tvö ár í að ekki verði lengur gert ráð fyrir norður/suðurbraut flugvallarins í aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá getur Reykjavíkurborg bara lokað vellinum samkvæmt aðalskipulagi — eða þeirri braut, henni verður þá sjálfkrafa lokað. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er síðan gert ráð fyrir að árið 2024, eftir fjögur ár, verði vellinum lokað. Þess vegna hlýtur að vera algjört lykilatriði í því samkomulagi sem var gert í nóvember í fyrra á milli samgönguráðherra og borgarstjóra, eins og ég las upp úr 3. mgr. 5. gr., að borgin aðlagi sig að þessu þannig að þetta sé sett inn í þær skipulagsreglur hjá borginni sem snúa að aðalskipulagi og deiliskipulagi. Ári eftir að samkomulagið er skrifað eru engar hugmyndir um það í borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík að virða samkomulagið.