151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:00]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er búinn að benda á þetta. Það er reyndar rétt, og ég hef rætt það, að það voru mistök að setja þetta ekki inn í greinargerðina. En við höfum tækifæri til þess núna. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur náttúrlega möguleika á að vinna með plaggið. Það er algjörlega eðlilegt, ef þetta er stóra málið. Í vinnslunni var ég með þetta einstaka plagg frá nóvember í fyrra í sigtinu. Það skiptir hins vegar engu máli því að það er ekki verið að virða samkomulagið og er enginn áhugi á því hjá meiri hlutanum í borginni, það hefur komið fram í samtölum. Ef einhver áhugi væri á því væru menn byrjaðir þá vinnu fyrir töluvert löngu, að sýna þann vilja. Það eru rúmir 14 mánuðir í árið 2022, og það er lykilatriðið, lykilsetningin, í þessu, að þetta sé sett inn í skipulag borgarinnar. Þar liggur viljinn til að fara að framkvæma hlutina samkvæmt samningnum. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé eina dæmið sem snýr að þessu. Ég hef margrætt þetta, (Gripið fram í.) fyrst hv. þingmaður kom inn á það hér. Ég er líka að tala um þetta hvað varðar flutningskerfi raforku og ég hef líka talað um þetta í tengslum við samgöngur, að við gætum að þjóðaröryggi í þessum málum.