151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:26]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Maður er á sprettinum. Hv. þingmaður kom aðeins inn á öryggismál og þau skipta einmitt miklu máli í tengslum við flugvöllinn. Við erum líka að tala um öryggismál þjóðarinnar, svona heildstætt. Það hefur einmitt verið spurt um það varðandi staðsetningu Landspítalans, og uppbyggingu á núverandi stað, hvernig eigi að tryggja þyrluflug til og frá vellinum. Flugstjórar Landhelgisgæslunnar hafa reyndar skrifað greinar, athugasemdir og umsagnir hér og þar um það sem snýr að þeim þætti málsins og eru ekki alveg sáttir við hvernig er staðið að málum. Þeir telja starfsemi flugvallarins mikilvæga í grenndinni til að þyrluflutningarnir hjá Gæslunni komist beint að.

Það var minnst á trén, þegar flogið er til lendingar yfir Öskjuhlíðina og í átt að Skerjafirðinum, sem starfsmenn flugvallarins gróðursettu þarna um 1950 eða svo. Einhver 150 tré koma núna upp í hindrunarflöt vallarins. Það hefur gengið hægt að virða samkomulag sem var gert 2013 um þessi tré og að koma upp aðflugsljósum og aðflugsbúnaði við Skerjafjörðinn til að lenda í átt að Öskjuhlíðinni, á þeirri braut. Þessu tvennu hefur ekki verið unnið að.

Það sem hefur hins vegar gerst nýlega er að flugöryggi hefur minnkað á flugvellinum. Út af þessum 150 trjám er búið að hækka aðflugslágmörkin inn á brautina. Vélar þurfa að koma brattar inn og lenda innar á brautinni. Síðan geta menn verið í alvöruumræðu um það hvort skipti meira máli þessi 150 tré (Forseti hringir.) eða hindrunarlágmörkin og aðflugslágmark fyrir brautina og flugöryggi þeirrar umferðar sem fer um flugvöllinn. Menn geta sett það líka í það samhengi.