151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var stórmerkilegur lestur, verð ég að segja, og upplýsir um klassískt viðhorf, sýnist mér, Sjálfstæðismanna um lýðræðislegar kosningar og þröskulda og fleiri skemmtilegheit. Þetta var alveg magnað. Þetta sýnir því að aðkoma þeirra, alla vega í 20 ár, að því að reyna að fá íbúa og þjóðina að ákvörðunartöku á einhvern hátt er alltaf þannig að það er slegið niður og sagt: Nei, þetta er viðhorfskönnun o.s.frv., í staðinn fyrir að reyna að ná þessu upp á aðeins hærra stig, meira beint lýðræði. Aðgangsþröskuldar eru mjög erfiðir viðfangs, það er mjög erfitt að glíma við þá af því að þeir þýða í raun og veru að þeir sem sitja heima greiði nei-atkvæði, hvort sem þeir meina það eða ekki. Ég skal alveg taka undir með það að formið og ýmislegt svoleiðis í þessu gerir að verkum að þetta er ekki bindandi og þar fram eftir götunum, en hvort sem þetta er niðurstaða viðhorfskönnunar eða hvað sem er, er þetta samt ákveðin viðleitni í því að leita til íbúa í ákvarðanatöku um mikilvæg málefni sveitarfélags eða jafnvel þjóðarinnar eins og á við um þessa þingsályktunartillögu.

Mér finnst rosalega leiðinlegt að það komi upp svona orðræða sí og æ, að lítið sé gert úr þessu tæki sem heitir beint lýðræði, það sé verið að reyna að setja aðgangsþröskulda að því, að það sé talað niður sem einhvers konar viðhorfskannanir og þess háttar. Mér finnst þetta bara mjög upplýsandi um það hvernig umræðan í dag um atkvæðagreiðslur og beint lýðræði er enn þá á því plani sem var viðhaft 2001.