151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:41]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem lagði þessar leikreglur fyrir kosninguna 2001. (Gripið fram í.) Það sem er aðalatriðið, hv. þingmaður, eru þær leikreglur sem koma fram fyrir kosningar um hvernig eigi að standa (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) að viðkomandi kosningum, það er ámælisvert.

(Forseti (ÞorS): Ræðumaður í ræðustól hefur orðið.)

Það er það sem ég er að benda á. Ég var í sjálfu sér að einhverju leyti að uppgötva þetta bara síðasta sólarhringinn. Ég fór í það verk, sem er ekki endilega auðvelt, það er dálítið erfitt að komast í fundargerðir borgarráðs fyrir 20 árum, á netinu, og áttaði mig á þessu þegar ég fór að rannsaka málið. Þá kemur það í ljós. Öll hin sögulega skoðun í umræðu á Íslandi er allt önnur en veruleikinn sem er á bak við kosninguna. Ég er að benda á það.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að þegar við félagarnir í Hjartanu í Vatnsmýri söfnuðum 70.000 undirskriftum árið 2013 um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, voru yfir 20.000 Reykvíkingar sem skrifuðu undir það plagg, yfir 20.000. Við erum að tala um 20% hlutfall og annað, en það voru 28% kosningarbærra Íslendinga sem tóku þátt í þeirri undirskriftasöfnun sem stóð yfir í fjórar til fimm vikur. Engar auglýsingar að marki eða neitt, það var mjög sjálfsprottið og enginn á launum við að vinna að þessu. Ég vil halda því til haga.

Það er mergur málsins varðandi íbúakosninguna 2001, sem sífellt er vitnað til, að ekki var farið að leikreglum. Það er það sem þarf að skoða. Ég held að menn ættu aðeins að líta yfir plöggin og sjá hvernig framvinda þessa máls var og hvernig staðið var að málum fyrir að verða 20 árum síðan.