151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á frammíköllum en það var verið að leggja mér orð í munn. Ég tók það sérstaklega fram að ég skil alveg formið, ég nefndi það áðan. Og þó að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sé ekki bindandi getur borgarráð alltaf tekið ákvörðun á einn eða annan hátt, hvort sem það var atkvæðagreiðsla eða ekki. Í bókuninni, sem hv. þingmaður las upp, var áskorun um að taka ábyrga afstöðu og taka ákvarðanir o.s.frv. án viðhorfskönnunar. Þegar viðhorfskönnunin svokallaða sýnir já með mjög tæpum meiri hluta er nákvæmlega ekkert að því að taka ábyrga afstöðu, eins og atkvæðagreiðslan hafi ekki einu sinni verið haldin, og vinna að því að fjarlægja flugvöllinn. Þannig að ég sé ekki að nein formsatriði hafi verið brotin, hún var ekki bindandi fram yfir 2016. Ókei, ekkert mál. Það breytir samt ekki því hver niðurstaðan var almennt séð og hvaða ákvarðanir voru teknar, hvort sem atkvæðagreiðslan var bindandi eða ekki, hvort sem hún var lýðræðisleg eða ekki. Það er ekkert sem bendir til að hún hafi ekki verið lýðræðisleg.

Varðandi undirskriftasöfnunina um Hjartað í Vatnsmýrinni þá var vissulega fullt af undirskriftum, alveg frábært, en þær undirskriftir eru bundnar sama vandamáli og þessi þingsályktunartillaga varðandi það hvar sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga liggur. Ef það voru 20% kosningarbærra íbúa í Reykjavík sem skrifuðu undir þá skil ég ekki af hverju ekki var farin hin lögformlega leið sem kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum og bara farið í atkvæðagreiðslu eins og á að geta gerst, bara sjálfkrafa, ef svo margar undirskriftir safnast. Ég skil ekki af hverju sú leið var ekki farin. Ef það er svona auðvelt, af hverju er það ekki gert?