151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:45]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hjartað í Vatnsmýrinni og við félagarnir í þeim samtökum litum svo á þetta væri hagsmunamál þjóðarinnar. Ég vil samt benda hv. þingmanni á að ástæðan fyrir að við söfnuðum bara í fjórar, fimm vikur á sínum tíma var að það var verið að klára að skila inn athugasemdum við aðalskipulag á þessum tíma, 20. september 2013. Við afhentum 70.000 undirskriftir um aðalskipulagið þar sem hver einstaklingur var að skrifa undir athugasemd við aðalskipulagið. Þá var nú lýðræðið í Reykjavík þannig að borgarstjórinn í Reykjavík sagði að hann hefði átt von á fleirum. Borgarstjórinn sagði það í viðtali. Honum fyndist þær fáar. Þetta voru yfir 20.000 Reykvíkingar. Það er sérstakt.

Ég er bara að benda á hér í pontu Alþingis leikreglurnar í íbúakosningunni sem sífellt er vitnað til í opinberri orðræðu. Það sem meiri hluti borgarstjórnar í dag bendir alltaf á er þessi íbúakosning. Sama hvaða álit hv. þingmaður hefur á því, hann segir að borgarstjórn geti ákveðið þetta sjálf og haft þetta eins og henni sýnist, þá voru þetta leikreglurnar, það voru settar ákveðnar leikreglur (Gripið fram í.) um ákveðinn fjölda, bindandi kosningu, líka um helminginn af þeim fjölda. Það eru settar leikreglur um 75% kosningarbærra íbúa og svo mæta miklu færri til leiks. Það getur vel verið af því að einhverjir sáu leikreglurnar og hugsuðu: Þá bara mæti ég ekki, þá minnka ég líkurnar. Það er hægt að hugsa þannig. Þetta eru bara leikreglur þannig að maður hefur áhrif á heildarkosninguna. Af þeim sem kusu á þeim tíma, það voru 37% kosningarbærra sem kusu, voru 2,5% atkvæða ógild eða auð, 49% vildu að völlurinn færi og 48% að hann væri áfram. Það munaði 382 atkvæðum. (Forseti hringir.) Það skiptir alltaf höfuðmáli hverjar leikreglurnar eru á bak við kosninguna. Maður býr ekki til einhvern annan veruleika eftir á.