151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[16:10]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Mig langaði aðeins að koma hingað upp um leið og ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni kærlega fyrir ræðuna, hann fór vel yfir þessi mál. Hann kom einmitt inn á það að sparnaður væri í því að leggja til aukið fjármagn til að hjálpa fólki að komast í meðferð þegar það óskar eftir því, og þá erum við að tala um þá sem þurfa að bíða lengi. Ég hef oft farið yfir það í ræðum og riti að rannsóknir hafa sýnt að það að koma fólki á fætur aftur, út í þjóðfélagið aftur, verða nýtir þjóðfélagsþegnar, þó að það kosti peninga, skilar ríkinu ávinningi til baka og viðkomandi finnur aftur tilgang með lífinu. Það er dýrt þegar fólk þarf að vera inni á stofnun og það er sorglegt fyrir fjölskyldur að horfa upp á fólk engjast um í þessum sjúkdómi.

Mig langar líka að árétta það, sem ég kom inn á í fyrri ræðu minni hér áðan, að oft hef ég fengið það svar, þegar ég hef verið að tala um þessa biðlista, að þegar komi að þeim sem eru á biðlistanum, búnir að bíða lengi, eins og kom fram í greinargerðinni, í 20–120 daga og jafnvel lengur, séu þeir ekki tilbúnir til að koma í meðferð. Það er einmitt þetta sem ég hef oft rætt um og er alveg þekkt innan þessa heims, að glugginn hjá mjög veikum einstaklingum af fíknisjúkdómi er mjög lítill og það þarf að bregðast við þegar hann óskar eftir hjálpinni. Þannig er bara sjúkdómurinn. Eins og ég sagði áðan er veikur einstaklingur í raun og veru tveir einstaklingar. Þar af leiðandi ræður viðkomandi persóna ekkert ferðinni þegar sjúkdómurinn tekur yfir. Því er mjög brýnt að það komi fram að þegar óskað er eftir að komast í meðferð sé meðferðin til staðar.

Af því að ég kom líka inn á forvarnir áðan þá langar mig að árétta að það felst í því forvörn fyrir fjölskyldur sjúklingsins, ég tala nú ekki um fyrir börnin, að sjá foreldri sitt og aðstandanda fara í meðferð og finna sjálfan sig á ný og verða sá einstaklingur sem hann var áður en hann veiktist. Það er mikil forvörn í því fyrir hina að sjá að þetta er að virka. Þannig er hægt að teygja forvarnir í ýmsar áttir. Mig langaði bara til að koma hingað upp aftur og árétta þetta.

Ég rak augun í það núna, meðan ég beið eftir að komast aftur hingað í stólinn, að það kemur fram hjá ríkislögreglustjóra í dag eða í gær að búið sé að tilkynna um 800 mál tengd heimilisofbeldi til lögreglu á árinu. Ríkislögreglustjóri segir að málum hafi fjölgað í kórónuveirufaraldrinum, hafi tekið stökkbreytingu. Hann segir einnig að skerpt hafi verið á viðbrögðum hjá lögreglu hér á landi en hún hafi sannarlega áhyggjur af þróuninni. Faraldurinn er að auka við vandamálið og vandamálið er mikið inni á heimilunum og því brýnt að greiða aðgang að þeim úrræðum sem í boði eru til að sporna við þessum alvarlega vanda.