151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðuna. Mig langaði aðeins að koma upp í andsvar vegna þess sem þingmaðurinn spurði um fyrst í ræðu sinni: Hvers vegna bara Vogur? Ég hef talað fyrir öllum meðferðarúrræðum en í þessu tilfelli nefni ég hann sérstaklega vegna þess að Vogur er viðurkennt sjúkrahús og þar er sérhæfð afeitrunarstöð sem er ekki á öðrum stöðum. Sjúkrahúsið Vogur afeitrar fyrir fleiri en sjálfan sig, ef við getum sagt sem svo. Samstarf sjúkrahússins Vogs og Landspítalans er mjög gott. Þeir sjá mikið um afeitranir fyrir Landspítalann. Bara svo að það komi fram gæti ég alveg flutt þingsályktunartillögu um betra aðgengi að öllum meðferðarúrræðum sem í boði eru. Mér væri það mjög ljúft en í þessu tilfelli einangra ég það við sjúkrahúsið Vog af þessari ástæðu. Margir ná árangri í baráttunni við þennan sjúkdóm án þess að fara í meðferð, svo að það sé sagt, með því að fara beint inn í AA-samtökin. Þeir sem þurfa ekki á því að halda eru þá ekki alkóhólistar. Sumir geta bara hætt og flestir geta hætt án þess að þurfa fara í meðferð. Það er bara alls ekki þannig alltaf. Það kom margt fram í ræðu þingmannsins sem mér fannst mjög athyglisvert. En þetta er það sem mig langaði til að bregðast við, svo að því sé komið á framfæri.