Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

94. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja. Flutningsmaður er auk mín Inga Sæland.

Frumvarpið hljóðar svo:

„I. kafli. Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

1. gr.

Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tilraun til starfa.

Örorkulífeyrisþega er heimilt að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Réttur til að starfa án skerðinga vegna atvinnutekna stofnast við tilkynningu örorkulífeyrisþega til Tryggingastofnunar um að hann hyggist nýta þá heimild eða á síðari dagsetningu sem örorkulífeyrisþegi tilgreinir sérstaklega í tilkynningu sinni. Um tilkynningu fer skv. 52. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að skerða bótagreiðslur séu heildartekjur öryrkja hærri en meðallaun í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Notast skal við nýjustu upplýsingar hverju sinni. Skal þá skerða þær greiðslur almannatrygginga sem örorkulífeyrisþegi á rétt á án tillits til atvinnutekna um 50% þeirrar fjárhæðar sem nemur mismun á heildartekjum örorkulífeyrisþega og meðallauna í viðkomandi starfsstétt. Skerðing samkvæmt ákvæðinu er heimil þrátt fyrir ákvæði b-liðar 2. mgr. 16. gr. og 4. mgr. 22. gr.

Óheimilt er að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu örorkulífeyrisþega á því tímabili þegar hann nýtir sér heimild til að afla sér atvinnutekna án skerðinga skv. 1. mgr. Við endurmat örorku skal ekki litið til starfsgetu örorkulífeyrisþega á tímabilinu.

Hafi umsækjandi áður nýtt sér heimild til að afla atvinnutekna án skerðinga getur hann sótt aftur um þá heimild átta árum eftir að tveggja ára tímabili skv. 1. mgr. lauk.

II. kafli. Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

2. gr.

Á eftir 3. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal ekki telja til tekna atvinnutekjur lífeyrisþega undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands á því tímabili þegar hann nýtir sér úrræði 1. mgr. 22. gr. a laga um almannatryggingar. Notast skal við nýjustu upplýsingar hverju sinni.

3. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.“

Frumvarpið var lagt fram á 150. löggjafarþingi, 33. mál, en var ekki afgreitt, eins og mörg önnur mál á því þingi. Ákvæði gildandi laga um almannatryggingar eru torskilin og gjarnan reynist erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á framkvæmd laganna. Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laganna vita þó að þeir eiga von á ýmiss konar skerðingum afli þeir sér atvinnutekna. Þá er örorkumat gjarnan veitt tímabundið og margir óttast skerðingu bóta ef heilsu þeirra hrakar eftir að þeir hefja vinnu. Öryrkjar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til að hefja atvinnu á ný. Þvert á móti ættu þeir að eiga von á betri lífskjörum. Því er lagt til að öryrkjum verði veitt sérstök heimild sem þeir geti nýtt sér þegar þeir vilja reyna að hefja störf á ný eða auka starfsgetu sína. Fari svo að sú tilraun heppnist ekki þarf öryrki ekki að óttast frekari skerðingar lífeyrisgreiðslna eða endurmat örorku á grundvelli þeirrar tilraunar. Svipað úrræði skilaði góðum árangri í Svíþjóð. Þar sneru um 30% þátttakenda aftur út á vinnumarkaðinn eftir tilraun til starfa. Samfélagið hefur ríka hagsmuni af því að allir þegnar þess hafi hvata til vinnu og aukinn starfskraftur er samfélaginu til góðs. Ríkissjóður fær skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja og því koma skatttekjur að einhverju leyti á móti auknum greiðslum almannatrygginga. Andleg heilsa batnar gjarnan ef fólk getur tekið virkan þátt í samfélaginu og því er þessi tilhögun til þess fallin að bæta andlega líðan öryrkja og fjölskyldna þeirra.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ný grein, 22. gr. a, bætist við lög um almannatryggingar sem heimili örorkulífeyrisþegum að sækja um undanþágu frá skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt í tvö ár. Þannig skerðist örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, örorkustyrkur, tekjutrygging og sérstök uppbót samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, ekki vegna atvinnutekna á því tímabili sem örorkulífeyrisþegi nýtir sér úrræðið. Eftir sem áður skerðast greiðslur vegna annarra tekna örorkulífeyrisþega á tímabilinu. Ákveðin efri mörk eru þó á úrræðinu og miðast þau við meðaltekjur í viðkomandi starfsstétt. Þannig skulu bætur skerðast með tilliti til atvinnutekna sem nái umfram það viðmið. Til að koma í veg fyrir tvíverknað skatta og skerðinga er þó lagt til að sú skerðing megi ekki nema meira en 50% tekna sem örorkulífeyrisþegi nýtur umfram meðallaun. Svo að úrræðið hvetji til aukinnar atvinnuþátttöku er í 3. mgr. kveðið á um að ekki megi líta til atvinnuþátttöku á meðan örorkulífeyrisþegi nýtir sér úrræðið þegar örorka er metin að nýju og að jafnframt sé óheimilt að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu á meðan úrræðið er nýtt. Því þarf örorkulífeyrisþegi ekki að hafa áhyggjur af því að aukin atvinnuþátttaka kunni að leiða til réttindamissis ef honum hrakar og hann þarf að draga úr vinnu. Í 4. mgr. er kveðið á um hvenær örorkulífeyrisþegi megi nýta sér úrræðið aftur.

Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 9. gr. laga um félagslega aðstoð til að tryggja að sérstök uppbót 2. mgr. 9. gr. þeirra laga skerðist ekki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega sem gerir tilraun til starfa.“

Virðulegur forseti. Kerfi almannatrygginga sem við höfum byggt upp er, eins og ég hef margoft bent á, skrímsli, bútasaumað skrímsli sem virðist ekki koma að gagni lengur nema til þess að valda úlfúð og skerðingum. Það furðulegasta við þetta kerfi er að það er orðið svo mannvonskulegt að ef króna er sett einhvers staðar inn í kerfið veldur það keðjuverkandi skerðingum út um allt kerfið og í mörgum tilfellum þannig að viðkomandi stendur verr eftir. Ég hef aldrei getað skilið þau lög sem setja á einstaklinga svo ótrúlega þvingandi skatta og skerðingar að það kemur í veg fyrir að þeir reyni að vinna. Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum vera búin að byggja upp þannig kerfi.

Lítum á þá staðreynd að nú í Covid-fárinu erum við búin að vera að semja lög um að greiða fyrirtækjum launakostnað í uppsagnarfresti, greiða fólki atvinnuleysisbætur og það er samt að vinna uppsagnarfrest, greiða fólki atvinnuleysisbætur sem hefur misst allar tekjur sínar. Það er gott. Við erum þó alla vega að reyna að hjálpa þeim sem virkilega þurfa á hjálp að halda. En á sama tíma eru einstaklingar þarna úti sem eru að reyna að vinna þrátt fyrir skert líkamlegt atgervi, öryrkjar sem vilja vinna. Það merkilegasta í því samhengi er að um leið og þeir reyna að vinna þá hafa þeir frítekjumark upp á 109.000 kr., frítekjumark sem hefur verið óbreytt í fjölda ára, frítekjumark sem á að vera vel yfir 200.000 kr. Ég spyr: Mun einhver treysta sér til að vinna ef hann veit að þær tekjur sem koma inn eru skertar og skattaðar upp undir 90% eða jafnvel meira? Ég held að svarið sé algerlega nei. Það er algerlega galið. Við erum með hátekjuskatt á þá sem fá virkilega háar tekjur. Það er ekki skert um nema helming af þessu. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum dettur okkur í hug setja helmingi meiri skatt á þá sem eru á lægstu bótum, undir fátæktarmörkum, ef þeir reyna að bjarga sér?

Eins og hér kom fram hafa Svíar gert þessa tilraun og það skilaði því að 30% þeirra sem tóku þátt í þessari tveggja ára tilraun til atvinnuþátttöku fóru ekki aftur inn í kerfið. Það segir okkur líka þá sögu, sem hefur margoft komið fram, að það vill enginn vera í þessu kerfi en því miður er fólk nauðugt í kerfinu. Það er eiginlega fáránlegt í þjóðfélagi að nýta ekki alla krafta þeirra sem vilja vinna. Félagsmálaráðherra hefur jú boðað starfsgetumat á vorþingi, starfsgetumat sem allir eru á móti, bara orðið fær hárin til að rísa hjá öryrkjum. Þetta frumvarp, ef þessi tilraun væri gerð, væri mun betri leið til þess að fá fólk til að gera tilraunina sjálft og á sínum forsendum. Það eru öryrkjar starfandi nú þegar sem lenda í því aftur og aftur að þurfa að hætta að vinna vegna þess að skerðingarnar geta orðið svo rosalegar. Við vitum að á ákveðnu tímabili verður ákveðið krónufall þannig að skerðingin verður alger. Það er vegna þess að við erum búin að byggja upp mannvonskulegt kerfi. Það sem gerir starfsgetumatið sem félagsmálaráðherra er að spá í að koma á laggirnar enn þá verra er að þegar fyrirspurn var lögð fyrir ríkisstofnanir um hvort þær væru með hreyfihamlaða eða fatlaða einstaklinga eða örorkubótaþega í vinnu, varð lítið um svör. Það var erfitt að finna það. Þetta minnir okkur líka á það þegar var verið að hagræða hjá Reykjavíkurborg, Strætó, á sínum tíma. Þar var fólki sem var í hjólastól sagt upp.

Þetta er kannski til að æra óstöðugan að mörgu leyti í því ástandi sem er í dag á vinnumarkaði og þessu mikla atvinnuleysi, en það breytir því ekki, hvort sem það eru öryrkjar eða aðrir, að við þurfum á því að halda að fólk finni vinnu. Það gildir jafnt um öryrkja og alla aðra. Þess vegna er það óskiljanlegt, í öllum þeim aðgerðum þar sem verið er að reyna að aðstoða einstaklinga með greiðslum í uppsagnarfresti og öðru, að við skulum ekki gera svipaðar ráðstafanir fyrir öryrkja. Með þessu frumvarpi værum við að gera það. Með þessu frumvarpi tækjum við það skref að hjálpa þeim einstaklingum sem vilja hjálpa sér sjálfir en kerfið slær alltaf á hendur þeirra vegna þess að það telur að það sé betra. Ég skil ekki þá röksemdafærslu að það sé betra að hafa viðkomandi öryrkja heima, einangraðan, en borga honum samt bætur, en að virkja hann og gefa honum tækifæri. Hann fer út á vinnumarkaðinn, hann fær tekjur og ríkið fær skatt. Ef við horfum á þetta frá því sjónarhorni þá græðir ríkið og líka hitt að öryrkinn kemur úr einangruninni og gerir tilraunir til að vinna á sínum forsendum, ekki kerfisins.

Ef ég hefði á mínu tímabili í örorku farið í starfsgetumat og það hefði verið sagt við mig: Við ætlum að þjálfa þig til að vera þingmaður. Ég held að það hefði ekki komið upp á borðið. En gjörðir mínar komu mér hingað. Það segir okkur að gjörðir þeirra sem eru þarna úti, öryrkja og annarra, geta komið þeim í þau störf sem þeir vilja. En þeir þurfa að fá tækifæri til þess án þess að vera refsað grimmilega á móti.

Við sjáum líka hversu fáránlegt þetta kerfi er og grimmdina í því, eins og ég ræddi í gær þegar ég mælti fyrir frumvarpi um aldurstengdu uppbótina sem er eitt af því furðulega sem er skert og tekið af viðkomandi öryrkjum þegar þeir verða 67 ára að aldri, verða heilbrigðir í boði ríkisins. Allar þessar gjörðir, og hvernig hefur verið komið fram við þennan hóp núna í Covid, sýna að þessi hópur hefur verið skilinn gjörsamlega eftir. Hann fær ekki einu sinni ókeypis grímur og hvað þá sóttvarnaefni, sem virðist vera sjálfsagt fyrir okkur t.d. hér á þingi. Þeir fá ekkert. Það merkilegasta líka í öllu þessu fári er að enn þá hefur ekki komið króna til eldri borgara. Það virðist eins og þessi hópur, öryrkjar sem vilja gera tilraun til þess að vinna, sé einhvern veginn utangátta, fái hvorki hjálp frá ríkinu í þessu ástandi né aðstoð við að reyna að koma sér út á vinnumarkaðinn.

Eins og ég sagði áðan og ég ítreka: Það er mun betra að leyfa viðkomandi að reyna að finna sér vinnu þó það væri ekki nema á þeirra forsendum og gefa þeim þessi tvö ár, gefa þeim tækifæri til að fara að vinna og ríkið fær skatttekjur til baka. Ég treysti því að þetta fólk finni jafnvel ný störf vegna þess að það eru engin takmörk fyrir því hvað fólk getur gert ef það fær tækifæri til þess. En til þess að það sé mögulegt verður það að fá tækifæri.

Ég mælist til þess að frumvarpið fari til velferðarnefndar og við fjöllum um það þar. Vonandi sér ríkisstjórnin ljós í þessu frumvarpi og sér líka að það er hagur ríkisins að koma þessu fyrirkomulagi á. Það er enginn að tapa einu eða neinu. Við erum að tala um tveggja ára tímabil, aðlögunartímabil, til að við getum áttað okkur á því hvort kerfið virkar, alveg eins og Svíarnir gerðu. Það er nákvæmlega sama röksemdafærsla sem gildir fyrir það þegar verið er að skerða tekjur eldri borgara þegar þeir vinna. Það eru engin rök fyrir því. Það er búið að margsanna það og þarf ekki nema einfaldan útreikning. Ríkið hefur hag af því og það sem er mest um vert, fólkið líka. Öryrkjar hafa hag af því og ég er sannfærður um að heilbrigðiskerfið hafi hag af því líka vegna þess að það er mannskemmandi og endar með álagi á heilbrigðiskerfið ef fólk er einangrað og lamið á því aftur og aftur með ósanngjörnum lögum og því neitað um tilraun til sjálfsbjargar. Ég vona því heitt og innilega að þetta frumvarp verði samþykkt.