Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

94. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil segja honum alveg eins og er að þeir samningar sem hafa verið gerðir eru góðir á sinn hátt og henta örugglega ákveðnum hópi en ekki stórum hópum. Aftur á móti eru öryrkjar í dag um 20.000, rúmlega það samkvæmt nýjustu tölum. Einhverjir eru í vinnu og endurhæfingu og annað. Það eru einhver 2-3.000 í endurhæfingu. Ef við segjum að 5.000 vildu fara að vinna, gætu það einhverra hluta vegna, þá erum við að tala um, miðað við að við náum sömu tölu og Svíar, að 1.500 myndu aldrei skila sér inn aftur.

Það segir sig auðvitað sjálft að ein af stóru orsökum örorku í dag eru geðrænir sjúkdómar, þeir eru stór hluti, og svo stoðkerfið. Það hlýtur að segja sig sjálft að það versta sem við gerum einstaklingum sem eru með geðræna sjúkdóma er að einangra þá heima, setja þá út í horn, enginn að pæla í hvað er í gangi og kerfið segir bara: Við erum að afskrifa ykkur. Fólk fær þar af leiðandi kannski örorkumat það sem eftir er. Það í staðinn fyrir hvetja alla til að fara út á eigin forsendum. Ég hugsa að það væri til vinnandi. Ég held að við munum aldrei tapa á því og ég held að ef við færum í þessa tveggja ára tilraunastarfsemi myndi það skila sér margfalt í því að við vissum þá betur hvernig við eigum að byggja kerfið upp. Við vitum að við verðum að taka almannatryggingakerfið algerlega til endurskoðunar og þar af leiðandi þennan hluta líka.