Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

94. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir þessar spurningar. Hann spyr hvort það hafi verið kannað annars staðar? Jú, ég hef aðeins reynt að kynna mér það. Í gegnum endurskoðun á almannatryggingakerfinu kynntumst við kerfinu í Danmörku. Svo vissum við líka af starfsgetukerfinu sem var sett upp í Bretlandi. Við höfum fengið heila bíómynd um hvernig það kerfi brást gjörsamlega. Þar var búið til starfsgetukerfi sem var bara ein tölva sem tók ákvörðun og sagði já eða nei, hvort menn væru vinnufærir eða ekki.

Síðan spyr hann hvort kannað hefði verið hver kostnaður ríkisins væri. Málið er að kostnaður ríkisins verður enginn nema til góðs. Ríkið fær tekjur, kostnaðurinn er sami og hann er núna. Ríkið þarf hvort sem er að borga þessu fólki örorkubætur. Það þarf að borga tekjutrygginguna og ýmis fríðindi og fólk má vinna fyrir 109.000 kr. En þessar 109.000 kr. eru bara svo bindandi. Það setur fólk í vanda vegna þess að það þarf alltaf að vera að fylgjast með að fara ekki yfir þessa tölu. Og því er refsað grimmilega. Það gerir sér enginn grein fyrir því fyrr en hann er í þeirri aðstöðu að þurfa að búa við skelfilegar skerðingarnar á hverju ári þar sem verið er að taka svona gífurlega mikið til baka. Við erum að tala um 80–90% skatt á tekjur. Ef maður fær 100.000 kr. er verið að taka til baka 80–90.000 kr. Hver gerir svona? Sá sem er með ofurlaun fær 100.000 kr. og það eru ekki teknar nema 46.000 kr. í skatta af honum. Þetta er grimmilegt kerfi. Ég er alveg sannfærður um að þetta mun verða ríkinu til góða og fólkinu til góða og heilbrigðiskerfinu og okkur öllum til góða vegna þess að við eigum að byggja upp mannlegt kerfi (Forseti hringir.) en ekki svona fjandsamlegt eins og það er í dag.