151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

aðgerðaáætlun um nýtingu þörunga.

49. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um nýtingu þörunga. Með mér á málinu er þingflokkur Framsóknarflokksins; hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Willum Þór Þórsson. Tillagan felur í sér að Alþingi feli umhverfis- og auðlindaráðherra, í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun þörunga og setji í því skyni fram tvíþætta aðgerðaáætlun til að styrkja lagaumgjörð og reglur annars vegar um ráðstöfun og nýtingu þörunga sem vaxa í sjó og hins vegar um þörungaræktun á landi og í sjó.

Aðgerðaáætlunin feli í sér eftirfarandi verkefni og aðgerðir:

Í fyrsta lagi: Skilgreiningu lagaumgjarðar fyrir nýtingu á þörungum sem vaxa villtir í sjó innan eða utan netlaga, eru ræktaðir í sjó innan eða utan netlaga eða eru ræktaðir á landi.

Í öðru lagi: Aðgerðaáætlun feli í sér tillögur um hvata til þess að afla og nýta þörunga á sjálfbæran hátt og auka verðmætasköpun innan lands.

Í þriðja lagi: Aðgerðaáætlun feli í sér tillögur um hvernig tryggja megi sjálfbærni við öflun allra tegunda þörunga.

Í fjórða lagi: Aðgerðaáætlun feli í sér tillögur um styrki til að stunda sjálfbæra öflun á þörungum, byggja upp aðstöðu til að uppskera þörunga, þróa framleiðslu á vörum unnum úr þörungum og markaðssetja vörur unnar úr þörungum.

Í fimmta lagi: Tillögur um hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.

Samantekt með aðgerðaáætlun um nýtingu þörunga skal liggja fyrir eigi síðar en 1. mars 2021 og ráðherra skal leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda hvað varðar þörungarækt eigi síðar en 1. maí 2021.

Þetta var þó nokkur upptalning, hæstv. forseti, enda er að mörgu að hyggja á þessum vettvangi. Ástæðan fyrir því að sú sem hér stendur taldi þörf á því að vinna þingsályktunartillögu sem þessa er að það er vaxandi markaður fyrir þörunga og afurðir þeirra í heiminum. Þetta eru oft og tíðum mjög dýrar vörur og skapa því mikil verðmæti. Hér á Íslandi eru, eins og við vitum öll, kjöraðstæður fyrir bæði öflun þörunga úr sjó og ræktun á landi. Löggjöfin sem við styðjumst enn sem komið er við, er annars vegar lög um fiskeldi, sem nær þá utan um ræktun þörunga á landi, eða alla vega að einhverju leyti. Og svo erum við með nýleg lög sem fjalla um nýtingu sjávargróðurs.

Sú sem hér stendur og meðflutningsmenn hennar telja að gera þurfi ítarlegri grein fyrir þessu og aðgreina annars vegar löggjöf um þang og hins vegar löggjöf um þara vegna þess að þetta eru mjög ólíkar tegundir, þótt yfirheiti á þessu öllu sé þörungar. Þetta er sem sagt mjög ruglingslegt, þarna er yfirheitið þörungar, sem nær utan um allar þessar tegundir. Svo erum við með smáþörunga annars vegar, sem eru þá ræktaðir á landi, og svo erum við með þara sem myndar, eins og flestir þekkja, mikla þaraskóga í hafinu. Í þriðja lagi er það þangið. Þess er t.d. aflað með þangslætti og það vex mun ofar. Þarinn vex í hafinu og er, þar sem hans er aflað, tekinn upp með eins konar plógum.

Þessi aðgreining í löggjöfinni er ekki nógu skýr og þess vegna þarf að fara betur yfir þessa hluti, hvað þarf að bæta og með hvaða hætti og jafnframt, eins og fram kemur í upptalningu minni, að búa til hvata. Einnig er mjög mikilvægt samhliða allri þessari vinnu að Hafrannsóknastofnun sé tryggt fjármagn til að stunda rannsóknir og eftirlit með áhrifum á öflun þörunga á lífríkið, vegna þess að þetta verður að vera gert á sjálfbæran hátt. Við verðum að standa vörð um náttúruna og ganga vel um hana.

Greinargerðin með málinu er nú töluvert umfangsmikil, skemmtileg og fróðleg. Hér er t.d. farið yfir stefnu stjórnvalda, Parísarsamkomulagið, bláa hagkerfið og nefndar ýmsar heimildir sem áhugavert er að rýna í fyrir þá sem hafa áhuga á þessu efni; ítarlegar skilgreiningar á þangi, þara og örþörungum o.s.frv. sem ég var að reyna að útskýra í mjög stuttu máli. En það sem mér finnst skipta máli er jú, eins og fram hefur komið, að við búum til sterka umgjörð um öflun og ræktun þörunga hér á Íslandi, að löggjöfin sé góð og að hvatar séu til staðar þannig að við getum skapað verðmæti og nýtt þær aðstæður til fulls sem hér eru.

En það sem skiptir ekki minna máli er nálgunin á loftslagsmálin. Mig langar til að lesa hluta af greinargerðinni sem snýr að loftslagsmálunum og markaði fyrir þörunga sem tengist þessum tækifærum til verðmætasköpunar, en vil nefna til að byrja með, hæstv. forseti, að landhelgi Íslands er jafn stór og Frakkland. Hér er sjórinn hreinn og miklir straumar þannig að við erum með svo mikið rými og góðar aðstæður og vissulega eru nokkur fyrirtæki nú þegar farin af stað sem komið hafa auga á þessi tækifæri, og fleiri eru í burðarliðnum. Nýlega bárust fréttir af fyrirtæki á Húsavík, sem væri að undirbúa vinnslu á þara, þannig að það eru margir búnir að kveikja ljósin. En við stjórnvöld erum aðeins á eftir að mínu mati og þurfum að hlaupa hraðar svo sjálfbærni nýtingar verði tryggð og einnig svo að þeir sem velja sér að fara inn á þennan vettvang geti treyst því að umgjörðin sé traust.

Herra forseti. Varðandi loftslagsmálin.

Ræktun og nýting þörunga hefur hverfandi lítil umhverfisáhrif þar sem ferlið krefst hvorki vatnsnotkunar, áburðar- né eiturefnanotkunar og þarf aðeins takmarkað landsvæði. Rannsóknir benda til þess að sjálfbærar öflunaraðferðir á þörungum hafi ekki neikvæð áhrif á lífríkið til lengri tíma. Þararæktun á línum í sjó, eins og nú þegar er stunduð við Ísland og víðar í heiminum, er einnig líkleg til að auka kolefnisbindingu og vinna þar með gegn súrnun sjávar. Ísland er hluti af OSPAR-samningi sem fjallar um vernd Norðaustur-Atlantshafsins. Súrnun sjávar er aukaafurð losunar á koltvísýringi út í andrúmsloftið og gleypir sjórinn því aukið magn koltvísýrings. Við það verða efnaskipti sem lækka sýrustig sjávar sem hefur skaðleg áhrif á lífríki hafsins. Jón Ólafsson, prófessor í haffræði, segir að súrnun sjávar sé hraðari við strendur Íslands en á öðrum hafsvæðum í heiminum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þörungar er um 400 sinnum virkari en tré í bindingu koltvísýrings, þeir eru ekki bara skilvirkari hvað varðar kolefnisbindingu heldur þurfa þeir mun minna rými en trjárækt. Eins og þegar er getið framleiða þörungar að minnsta kosti um helming alls þess súrefnis sem við drögum að okkur með ljóstillífun. Sumir vísindamenn telja að hlutfallið sé 90%. Þörungategundir hafa mismunandi vaxtarhraða en til eru tegundir sem geta vaxið meira en 65 sm á dag og tífaldað lífmassa sinn á 6–8 vikum. Þörungar er ekki bara næringarrík fæðutegund sem framleiðir mikið magn súrefnis heldur má einnig nýta þörunga til framleiðslu á lífeldsneyti og fóðri og nýta má þá sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Framleiða má lífeldsneyti hérlendis í miklu magni þannig að það geti komið í staðinn fyrir innflutt eldsneyti og þannig dregið úr neikvæðum áhrifum eldsneytisnotkunar á umhverfið. Lífeldsneyti getur auk þess orðið verðmæt útflutningsvara en með framleiðslu þess má bæði spara gjaldeyri og auka útflutningstekjur. Þegar búið er að vinna lífeldsneyti úr þörungum er hægt að nýta það sem eftir verður til þess að framleiða verðmætt fóður fyrir fiskeldi sem og fóður fyrir kjúklinga og svín. Það er því ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Möguleikar á frekari nýtingu þörunga til hagsbóta fyrir umhverfið eru þannig miklir og gætu verið lykillinn að því að leysa einhverjar af þeim áskorunum sem við okkur blasa til að tryggja fæðuöryggi kynslóða framtíðarinnar. Þá má sannarlega segja að framtíðin sé núna og því er ekki seinna vænna að byrja að nota þessa sjálfbæru auðlind sem finna má í fjörum okkar og hafi.

Herra forseti. Aðeins meira varðandi virkni þörunganna. Þörungar eru sannkölluð ofurfæða. Þeir innihalda oft 10–100 sinnum meira af vítamínum en ávextir og grænmeti og eru einnig ríkari uppspretta steinefna, snefilefna og ýmissa lífvirkra efna, en flestur matur sem á uppruna sinn á landi. Sumar tegundir eru einnig próteinríkar. Það kemur mörgum á óvart.

Eins og ég sagði er heimsmarkaður fyrir þörunga stór og hann fer vaxandi. Við vitum að þjóðir í Asíu hafa lengi stundað umfangsmikla framleiðslu á þörungum og svæði í Norður-Ameríku eru komin með dágóða reynslu. Hollendingar eru orðnir nokkuð framarlega á þessu sviði, bæði varðandi smáþörunga og ræktun þangs á strengjum. Þannig að þjóðir nær og fjær eru komnar vel áleiðis. Hér á landi eru ýmis fyrirtæki komin af stað í þessum málum. Ber þar helst að nefna Reykhóla, þar sem þangs hefur verið aflað við Breiðafjörð. Sú framleiðsla hefur skipt sköpum fyrir það byggðarlag þannig að þetta er ekki síður byggðamál ef við sjáum þarna tækifæri til vaxtar vítt og breitt um landið.

Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá júlí 2020 er áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótein 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Vöxturinn er gríðarlegur. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að það sé vaxandi eftirspurn eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem byggðar eru á þörungum. Ísframleiðendur eru líka farnir að bæta örþörungum við afurðir sínar til að auka næringargildi vörunnar. Sem stendur framleiða þessi fyrirtæki mikið úrval af vörum úr þörungum. Þar er m.a. að finna andoxunarefni, prótein, bragð- og litarefni. Nú má finna vörur sem byggðar eru að einhverju leyti á efnum úr þörungavinnslu á veitingastöðum um allan heim, líka bjór. Efnin er líka að finna í snyrtivörum, græðandi kremum og einnig í mörgum öðrum vörum, eins og málningarvörum og tannkremi, dekkjum og alls konar. Þetta kemur okkur á óvart. Þetta er alveg stórmerkilegt allt saman. Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá nóvember 2019. Mörg fyrirtæki eru að taka sín fyrstu spor á þessu sviði og því má vænta að veltuaukningin í þessari grein verði allveruleg á næstu árum.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum, en greinargerð fylgir málinu og hana má finna á heimasíðu Alþingis, þannig að þeir sem hafa verið að fylgjast með þessari umræðu geta kynnt sér hana betur. Ég vona að Alþingi taki vel í þessa tillögu og afgreiði hana fljótt og örugglega.