151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

umbætur á lögum um hælisleitendur.

[15:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég tók þátt í þeirri atkvæðagreiðslu sem hæstv. ráðherra nefndi hér um nýju löggjöfina árið 2016. Ég greiddi atkvæði eftir mjög mikla yfirlegu vegna þess, og ég held að það sé ekkert leyndarmál, að það var enginn fullkomlega sáttur við þá löggjöf. Hún var það stór og umsvifamikil. Það er í sjálfu sér eðlilegt út af fyrir sig, en hins vegar var líka svo mikið af hryllingi fyrir að það var ærið tilefni til að bæta ýmislegt þar. Aftur á móti hvað varðar það að endurskoða löggjöfina þá finnst mér reynslan af löggjöfinni 2016 hafa sýnt að það dugar ekki að setja háleit markmið í löggjöf ef ekki er raunverulegur vilji hjá framkvæmdarvaldinu sjálfu til að framfylgja henni af mannúð og meta matskennd atriði í átt að mannúð, og almennri skynsemi, myndi ég reyndar líka segja, vegna þess að stundum hendum við fólki úr landi af engri ástæðu, alveg burt séð frá mannúðarástæðum. Það vil ég meina að sé tilfellið. Hér er sex ára einstaklingur sem við ætlum að henda úr landi vegna þess að lagalega séð er hann ekki Íslendingur. Þetta er ekkert einsdæmi. Frá því að ég kom hingað fyrst á þing hefur þetta verið gegnumgangandi umræða á Alþingi. Það þarf að gera gangskör að þessu, virðulegur forseti. Ætlar forsætisráðherra að beita sér fyrir því umfram einhverja lagatæknilega breytingu hér eða endurmeta reynsluna af hinu?