151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

umbætur á lögum um hælisleitendur.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Framkvæmdarvaldið framfylgir vilja löggjafans og það sem ég benti á er að það hafa ekki margar tillögur að breytingu komið fram í þessum sal um endurbætur á lögunum frá 2016. Ég horfi hér á hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur sem var með tillögu um fylgdarlaus börn. Ég veit að hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson var sömuleiðis með tillögu um breytingu. Þá er það nánast upptalið eftir því sem ég best kann þessa sögu.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að það er ekki eins og hér sé ekki mannúðin höfð að leiðarljósi. Við skulum horfa til þess að rúm 60% umsókna hafa verið samþykkt í málum sem er lokið á þessu ári hjá þeim sem hafa sótt um vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi. Það eru þá 368 einstaklingar, börn og fjölskyldur og einstaklingar, sem hafa fengið vernd. Þegar eingöngu er horft til þeirra mála sem hafa fengið efnismeðferð hafa 79% umsókna verið samþykkt. Umsóknum hefur líka fjölgað mjög á undanförnum árum, hlutfallslega meira hér en annars staðar á Norðurlöndum, eins og bent hefur verið á af hálfu Útlendingastofnunar.

Ég held að hins vegar sé ávallt rými til umbóta (Forseti hringir.) og af því að hv. þingmaður spyr mig þá hef ég lagt á það áherslu að sérstaklega verði skoðuð staða fylgdarlausra barna, (Forseti hringir.) eins og lagt hefur verið til hér í þinginu, og að við lítum líka til nágrannaþjóða okkar þegar kemur að því hvernig mat á hagsmunum barna fer fram í kerfunum okkar, hvort við (Forseti hringir.) getum lært af því sem aðrar þjóðir eru að gera í þeim málum.