151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða hjúkrunarheimila.

[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að rétt sé að skipta svarinu í tvennt. Í fyrsta lagi, varðandi sérstakan stuðning út af Covid, þá er því til að svara að það hefur komið fram á fundi mínum með Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, í greinum sem ég hef skrifað og í svörum mínum til fjölmiðla, að við hyggjumst bæta kostnað sem hefur fallið til vegna Covid þegar við sjáum upplýsingarnar liggja fyrir, þegar þær liggja fyrir í lok árs. Þetta vita þessir aðilar og ég frábið mér einhverjar skýringar um að það snúist um það að beita hjúkrunarheimilin eða þessa aðila einhverjum órétti.

Í öðru lagi vil ég segja að þau fyrirheit sem koma fram í stjórnarsáttmálanum, og lúta að því að endurskoða rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna, sem er þannig orðað í þeim texta, standa. Nú stendur yfir greining starfshóps undir forystu Gylfa Magnússonar sem hefur það hlutverk að greina kostnað við rekstur hjúkrunarrýma á Íslandi. Þetta vita Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þetta vita sveitarfélögin og þetta vitum við og þetta eru í raun og veru þríhliða áform sem eru hluti af þeirri bókun sem lá fyrir þegar síðast var skrifað undir rekstrarsamninga við rekstraraðila hjúkrunarheimila. Til viðbótar hef ég átt í samtali og samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um þjónustu við aldraða almennt á landsvísu og þar með talið um rekstur hjúkrunarheimila.